Bikarar af íþróttahátíð 2024
Kópavogsbúar 18 ára og eldri geta haft áhrif og kosið um íþróttafólk ársins 2025.
Rafræn íbúakosning um íþróttafólk Kópavogs 2025 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs
Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem lýðheilsu- og íþróttanefnd Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum.
Þegar kosið er er nauðsynlegt að velja sæti 1-5 í hvorri kosningu þar sem hvert sæti gefur ákveðinn stigafjölda:
- sæti gefur 5 stig
- sæti gefur 4 stig
- sæti gefur 3 stig
- sæti gefur 2 stig
- sæti gefur 1 stig
Kosning hefst þann 19. desember 2025 og lýkur 4. janúar 2026.
Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs í Salnum, fimmtudaginn 8. janúar 2026 kl. 17:30, en þar verða jafnframt veittar viðurkenningar vegna íþróttaársins 2025.
Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2025.
Agnes Ýr Rósmundardóttir - Kraftlyftingakona - Breiðablik

Agnes Ýr hefur á stuttum ferli í kraftlyftingum náð ótrúlegum árangri og átti frábært keppnisár 2025. Á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi í maí vann hún til bronsverðlauna í samanlögðu í +84 kg flokki með 525 kg, auk bronsverðlauna í bekkpressu (132,5 kg) og réttstöðulyftu (182,5 kg). Á heimsmeistaramótinu í Rúmeníu í nóvember bætti hún sinn eigin árangur verulega og lyfti samtals 592,5 kg, sem skilaði henni 5. sæti í samanlögðu. Hún var nálægt verðlaunasæti bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu en endaði í 4. sæti í báðum greinum. Innanlands varð hún stigahæst kvenna á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum ásamt því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil í +84 kg flokki. Þá varð hún bikarmeistari í +84 kg flokki í klassískri bekkpressu. Agnes Ýr hefur verið ómissandi félagsmaður þegar kemur að uppbyggingu kraftlyftingaríþróttarinnar og ávallt tilbúin að aðstoða á mótum.
Birta Georgsdóttir - Knattspyrnukona - Breiðablik

Birta Georgsdóttir átti frábært tímabil með liði sínu Breiðabliki, þar sem hún varð ásamt liðsfélögum sínum bæði Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu kvenna. Liðið hefur einnig átt góðu gengi að fagna í evrópuleikjum sínum á árinu og nú í lok árs tryggði liðið sér sæti í fjórðungsúrslitum UEFA Women’s Europa Cup og mætir liði Häcken í febrúar 2026. Birta var í lok tímabils valin besti leikmaður Bestu deildar kvenna og var næstmarkahæst í deildinni með 18 mörk og 7 stoðsendingar. Hún er vinnusöm og skapandi leikmaður sem leggur sig 100% fram í allar æfingar og leiki. Birta er mikilvægur hlekkur í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks og frábær fyrirmynd innan sem utan vallar. Dugnaður og metnaður hafa komið henni langt og munu án efa færa henni enn meiri árangur í framtíðinni.
Dagur Kári Ólafsson - Fimleikamaður - Gerpla

Dagur Kári Ólafsson átti einstakt ár 2025 og sýndi frábæra frammistöðu bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og er orðin lykilmaður í landsliði Íslands. Hér innanlands varð Dagur Íslandsmeistari á bogahesti, hafnaði í 3. sæti í fjölþraut og á tvíslá og var í lykilhlutverki í liði Gerplu sem varð bikarmeistari á árinu. Hann sigraði einnig í fjölþraut á Vormóti með gull á bogahesti og tvíslá og silfur á stökki og gólfi.
Á HM í Jakarta í október náði hann sínum stærsta árangri hingað til þegar hann tryggði sér sæti í úrslitum í fjölþraut og endaði í 24. sæti. Með þessum árangri braut hann blað í íslenskri fimleikasögu en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur fimleikamaður nær þessum árangri. Dagur Kári keppti einnig á EM í Leipzig og á Heimsbikarmótum í París og Oijek á árinu og var í lok árs valin Fimleikakarl ársins 2025 hjá Fimleikasambandi Íslands.
Hildur Maja Guðmundsdóttir - Fimleikakona - Gerpla

Hildur Maja hefur þrátt fyrir ungan aldur verið ein fremsta fimleikakona landsins og lykilkona í landsliði Íslands í áhaldafimleikum. Þrátt fyrir erfið meiðsli í byrjun tímabilsins varð hún bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Hún hafnaði í 2. sæti á slá á Íslandsmótinu og sigraði svo í fjölþraut með yfirburðum á vormóti Fimleikasambandsins. Á Evrópumótinu í Leipzig varð hún efst íslenskra kvenna í fjölþraut. Í júní skrifaði hún sig í sögubækurnar, þegar hún vann til silfurverðlauna á gólfi á heimsbikarmóti í Tashkent í Uzbekistan. En þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kona vinnur til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum. Hún keppti einnig á heimsbikarmóti í París og á Heimsmeistaramótinu í Jakarta, þar sem hún varð stigahæst íslenskra stúlkna í fjölþraut. Í lok árs var Hildur Maja valin Fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands. Hún er frábær fyrirmynd innan sem utan vallar sem sýnt hefur mikla þrautseigju og metnað.
Hulda Clara Gestsdóttir - Kylfingur - GKG

Hulda Clara Gestsdóttir hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins undanfarin ár og landsliðskylfingur. Í sumar var hún hársbreidd frá Íslandsmeistaratitli en hafnaði í 2. sæti eftir bráðabana. Á árinu 2025 sigraði Hulda á Summit League Women’s Golf Championship í apríl og varð í 2. sæti á Boilermaker Classic í mars, bæði mót í efstu deild NCAA háskólamótaraðarinnar. Hún lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða í Frakklandi, þar sem hún var best íslenskra kylfinga í höggleik og vann alla sína andstæðinga í holukeppni. Hulda náði hæst í 163. sæti á heimslista áhugamanna áður en hún gerðist atvinnumaður í ágúst og stefnir nú á að komast inn á Evrópumótaröð kvenna í gegnum úrtökumót. Hún er metnaðarfull, skipulögð og vinnusöm íþróttakona sem hefur alla burði til að ná efstu stigum atvinnumennsku og er frábær fyrirmynd fyrir aðra kylfinga.
Ingvar Ómarsson - Hjólreiðamaður - Breiðablik

Ingvar Ómarsson hefur verið fremsti hjólreiðamaður landsins í meira en áratug og er enn í fremstu röð. Hann sannaði það rækilega með því að verða Íslandsmeistari í fimm mismunandi greinum á árinu 2025: cyclocross, tímatöku, e-hjólreiðum, gravel og maraþon fjallahjólreiðum. Ingvar hefur átt fast sæti í landsiði Íslands í hjólreiðum á undanförnum árum. Á liðnu ári keppti hann fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í Andorra í tveimur greinum. Í götuhjólreiðum náði hann bestum árangri íslenskra keppenda og endaði í 15. sæti og í tímatöku endaði hann í 10. sæti. Ingvar býr yfir miklum aga, keppnisskapi, viljastyrk og ákveðni sem hafa komið honum langt í sportinu og hjálpað honum að yfirstíga erfið tímabil.
Jón Þór Sigurðsson - Skotíþróttamaður - Skotíþróttafélag Kópavogs

Jón Þór Sigurðsson hefur átt stórkostlegt ár í skotíþróttum og náð árangri sem setur hann í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Í 300 metra liggjandi riffli tryggði hann sér Evrópumeistaratitil í Chateauroux, Frakklandi með glæsilegri einkunn, 599 stig, sem jafnframt var nýtt Íslandsmet. Hann hlaut svo bronsverðlaun á Heimsmeistaramótinu í Kaíró, Egyptalandi með 597 stig. Í Evrópumótaröðinni í skotfimi í 300 m liggjandi riffli vann hann til gullverðlauna í Chur í Sviss og hafnaði svo í 5. sæti bæði í Zagreb og Árósum. Að auki tryggði Jón Þór sér einnig fyrsta sæti á landsmóti og Íslandsmóti í riffilgreinum.
Í skammbyssugreinum vann hann Íslandsmeistaratitla í Sport skammbyssu og Gróf skammbyssu, auk þess sem hann sýndi styrk í loftskammbyssu með sigri á Smáþjóðaleikunum í Andorra í maí, þar sem hann skoraði 567 stig og 229,3 í úrslitum. Hann vann einnig á Reykjavik International Games í janúar Með Íslandsmetum, Evrópumeistaratitli og bronsverðlaunum á Heimsmeistaramóti hefur hann skrifað sig í sögubækurnar.
Ragnar Smári Jónasson - Bogfimimaður - Bogfimifélagið Boginn

Ragnar Smári Jónasson átti glæsilegt ár í bogfimi en hann vann alls sex verðlaun á alþjóðlegum mótum. Á Evrópumóti U21 ára í berboga vann hann silfurverðlaun í liðakeppni karla. Hann vann svo til tveggja bronsverðlauna, bæði í einstaklings- og liðakeppni á EM U21 í víðavangsbogfimi í Póllandi. Í báðum tilfellum er það í fyrsta sinn í sögu íþróttarinnar sem Íslendingur vinnur til verðlaun á EM U21 í víðavangsbogfimi. Ragnar vann einnig brons í liðakeppni á Evrópubikarmóti U21 í Búlgaríu og silfur í einstaklings- og liðakeppni á Norðurlandamóti U21. Hann endaði í 7. sæti í Evrópubikarmótaröð U21 og kom Íslandi í fyrsta sinn í 16 liða úrslit á HM ungmenna, þar sem hann hafnaði í 9. sæti.
Innanlands var Ragnar bikarmeistari BFSÍ, Íslandsmeistari karla innanhúss og vann sjö aðra Íslandsmeistaratitla í einstaklings- og liðakeppni í meistaraflokki og U21 flokki. Hann sló Íslandsmet í meistaraflokki karla og bætti 16 önnur Íslandsmet í félags- og landsliðskeppni. Í lok árs var Ragnar valin Trissubogamaður ársins hjá Bogfimisambandi Íslands.
Snævar Örn Kristmannsson - Sundmaður - Breiðablik

Snævar Örn Kristmannsson hefur átt frábært ár í sundi og er einn fremsti sundmaður í flokki einhverfa í heiminum í flugsundi. Hann setti heimsmet í 50 metra flugsundi á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug. Á sama móti setti hann einnig þrjú Evrópumet, í 100 metra flug, 200 metra flug og 100 metra fjórsundi. Snævar keppti á Heimsmeistaramótinu í ágúst, en þar kepptu allir sterkustu sundmenn í hans flokki í heiminum. Á mótinu vann hann til þriggja silfurverðlauna í öllum flugsundsgreinunum 50, 100 og 200 metrum. Á Íslandsmeistaramótum á árinu náði hann í tvö silfur og eitt brons í opnum flokki og hefur í heildina slegið 33 Íslandsmet á árinu. Dugnaður og seigla Snævars skila honum stöðugum framförum og hann stefnir nú á Evrópumótið sem fram fer sumarið 2026. Í lok árs var Snævar Örn svo valinn Íþróttamaður ársins 2025 hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Una Borg Garðarsdóttir - Karatekona - Breiðablik

Una Borg er ein efnilegasta en um leið ein af betri karatekonum landsins í dag. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið í landsliði Íslands í karate í nokkur ár og unnið til verðlauna bæði innanlands og erlendis á árinu. Hún varð Íslandsmeistari í kata kvenna 2025 og á bikarmóti KAÍ í nóvember varð hún einnig bikarmeistari í kata kvenna. Hún tók þátt í fjölmörgum alþjóðlegum mótum á árinu. Á Norðurlandamótinu í Danmörku vann hún til bronsverðlauna og einnig á Swedish Open. Á Smáþjóðaleikunum í Andorra í maí endaði Una í 5 sæti í kata, en auk þessa tók hún einnig þátt í Evrópumeistaramótinu í kata. Auk frábærs árangurs á gólfinu er Una Borg virkur félagsmaður sem starfar sem afleysingaþjálfari og liðsstjóri á mótum og er fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina.