Rafræn íbúakosning um íþróttafólk Kópavogs 2025

Bikarar af íþróttahátíð 2024
Bikarar af íþróttahátíð 2024

Kópavogsbúar 18 ára og eldri geta haft áhrif og kosið um íþróttafólk ársins 2025.

Rafræn íbúakosning um íþróttafólk Kópavogs 2025 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs

Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem lýðheilsu- og íþróttanefnd Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum.

Þegar kosið er er nauðsynlegt að velja sæti 1-5 í hvorri kosningu þar sem hvert sæti gefur ákveðinn stigafjölda:

  1. sæti gefur 5 stig
  2. sæti gefur 4 stig
  3. sæti gefur 3 stig
  4. sæti gefur 2 stig
  5. sæti gefur 1 stig

Kosning hefst þann 19. desember 2025 og lýkur 4. janúar 2026.

Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs í Salnum, fimmtudaginn 8. janúar 2026 kl. 17:30, en þar verða jafnframt veittar viðurkenningar vegna íþróttaársins 2025.

Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2025.

 

Agnes Ýr Rósmundardóttir -  Kraftlyftingakona - Breiðablik

 Agnes Ýr Rósmundsdóttir

Agnes Ýr hefur á stuttum ferli í kraftlyftingum náð ótrúlegum árangri og átti frábært keppnisár 2025. Á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi í maí vann hún til bronsverðlauna í samanlögðu í +84 kg flokki með 525 kg, auk bronsverðlauna í bekkpressu (132,5 kg) og réttstöðulyftu (182,5 kg). Á heimsmeistaramótinu í Rúmeníu í nóvember bætti hún sinn eigin árangur verulega og lyfti samtals 592,5 kg, sem skilaði henni 5. sæti í samanlögðu. Hún var nálægt verðlaunasæti bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu en endaði í 4. sæti í báðum greinum. Innanlands varð hún stigahæst kvenna á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum ásamt því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil í +84 kg flokki. Þá varð hún bikarmeistari í +84 kg flokki í klassískri bekkpressu. Agnes Ýr hefur verið ómissandi félagsmaður þegar kemur að uppbyggingu kraftlyftingaríþróttarinnar og ávallt tilbúin að aðstoða á mótum.

 

Birta Georgsdóttir - Knattspyrnukona - Breiðablik

Birta Georgsdóttir

Birta Georgsdóttir átti frábært tímabil með liði sínu Breiðabliki, þar sem hún varð ásamt liðsfélögum sínum bæði Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu kvenna. Liðið hefur einnig átt góðu gengi að fagna í evrópuleikjum sínum á árinu og nú í lok árs tryggði liðið sér sæti í fjórðungsúrslitum UEFA Women’s Europa Cup og mætir liði Häcken í febrúar 2026. Birta var í lok tímabils valin besti leikmaður Bestu deildar kvenna og var næstmarkahæst í deildinni með 18 mörk og 7 stoðsendingar. Hún er vinnusöm og skapandi leikmaður sem leggur sig 100% fram í allar æfingar og leiki. Birta er mikilvægur hlekkur í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks og frábær fyrirmynd innan sem utan vallar. Dugnaður og metnaður hafa komið henni langt og munu án efa færa henni enn meiri árangur í framtíðinni.

 

Dagur Kári Ólafsson - Fimleikamaður - Gerpla

 Dagur Kári Ólafsson

Dagur Kári Ólafsson átti einstakt ár 2025 og sýndi frábæra frammistöðu bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og er orðin lykilmaður í landsliði Íslands. Hér innanlands varð Dagur Íslandsmeistari á bogahesti, hafnaði í 3. sæti í fjölþraut og á tvíslá og var í lykilhlutverki í liði Gerplu sem varð bikarmeistari á árinu. Hann sigraði einnig í fjölþraut á Vormóti með gull á bogahesti og tvíslá og silfur á stökki og gólfi.
Á HM í Jakarta í október náði hann sínum stærsta árangri hingað til þegar hann tryggði sér sæti í úrslitum í fjölþraut og endaði í 24. sæti. Með þessum árangri braut hann blað í íslenskri fimleikasögu en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur fimleikamaður nær þessum árangri. Dagur Kári keppti einnig á EM í Leipzig og á Heimsbikarmótum í París og Oijek á árinu og var í lok árs valin Fimleikakarl ársins 2025 hjá Fimleikasambandi Íslands.

 

Hildur Maja Guðmundsdóttir - Fimleikakona - Gerpla

Hildur Maja Guðmundsdóttir

Hildur Maja hefur þrátt fyrir ungan aldur verið ein fremsta fimleikakona landsins og lykilkona í landsliði Íslands í áhaldafimleikum. Þrátt fyrir erfið meiðsli í byrjun tímabilsins varð hún bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Hún hafnaði í 2. sæti á slá á Íslandsmótinu og sigraði svo í fjölþraut með yfirburðum á vormóti Fimleikasambandsins. Á Evrópumótinu í Leipzig varð hún efst íslenskra kvenna í fjölþraut. Í júní skrifaði hún sig í sögubækurnar, þegar hún vann til silfurverðlauna á gólfi á heimsbikarmóti í Tashkent í Uzbekistan. En þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kona vinnur til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum. Hún keppti einnig á heimsbikarmóti í París og á Heimsmeistaramótinu í Jakarta, þar sem hún varð stigahæst íslenskra stúlkna í fjölþraut. Í lok árs var Hildur Maja valin Fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands. Hún er frábær fyrirmynd innan sem utan vallar sem sýnt hefur mikla þrautseigju og metnað.

 

Hulda Clara Gestsdóttir - Kylfingur - GKG

Hulda Clara Gestsdóttir

Hulda Clara Gestsdóttir hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins undanfarin ár og landsliðskylfingur. Í sumar var hún hársbreidd frá Íslandsmeistaratitli en hafnaði í 2. sæti eftir bráðabana. Á árinu 2025 sigraði Hulda á Summit League Women’s Golf Championship í apríl og varð í 2. sæti á Boilermaker Classic í mars, bæði mót í efstu deild NCAA háskólamótaraðarinnar. Hún lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða í Frakklandi, þar sem hún var best íslenskra kylfinga í höggleik og vann alla sína andstæðinga í holukeppni. Hulda náði hæst í 163. sæti á heimslista áhugamanna áður en hún gerðist atvinnumaður í ágúst og stefnir nú á að komast inn á Evrópumótaröð kvenna í gegnum úrtökumót. Hún er metnaðarfull, skipulögð og vinnusöm íþróttakona sem hefur alla burði til að ná efstu stigum atvinnumennsku og er frábær fyrirmynd fyrir aðra kylfinga.

 

Ingvar Ómarsson  - Hjólreiðamaður - Breiðablik

Ingvar Ómarsson

Ingvar Ómarsson hefur verið fremsti hjólreiðamaður landsins í meira en áratug og er enn í fremstu röð. Hann sannaði það rækilega með því að verða Íslandsmeistari í fimm mismunandi greinum á árinu 2025: cyclocross, tímatöku, e-hjólreiðum, gravel og maraþon fjallahjólreiðum. Ingvar hefur átt fast sæti í landsiði Íslands í hjólreiðum á undanförnum árum. Á liðnu ári keppti hann fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í Andorra í tveimur greinum. Í götuhjólreiðum náði hann bestum árangri íslenskra keppenda og endaði í 15. sæti og í tímatöku endaði hann í 10. sæti. Ingvar býr yfir miklum aga, keppnisskapi, viljastyrk og ákveðni sem hafa komið honum langt í sportinu og hjálpað honum að yfirstíga erfið tímabil.

 

Jón Þór Sigurðsson - Skotíþróttamaður - Skotíþróttafélag Kópavogs

Jón Þór Sigurðsson

Jón Þór Sigurðsson hefur átt stórkostlegt ár í skotíþróttum og náð árangri sem setur hann í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Í 300 metra liggjandi riffli tryggði hann sér Evrópumeistaratitil í Chateauroux, Frakklandi með glæsilegri einkunn, 599 stig, sem jafnframt var nýtt Íslandsmet. Hann hlaut svo bronsverðlaun á Heimsmeistaramótinu í Kaíró, Egyptalandi með 597 stig. Í Evrópumótaröðinni í skotfimi í 300 m liggjandi riffli vann hann til gullverðlauna í Chur í Sviss og hafnaði svo í 5. sæti bæði í Zagreb og Árósum. Að auki tryggði Jón Þór sér einnig fyrsta sæti á landsmóti og Íslandsmóti í riffilgreinum.
Í skammbyssugreinum vann hann Íslandsmeistaratitla í Sport skammbyssu og Gróf skammbyssu, auk þess sem hann sýndi styrk í loftskammbyssu með sigri á Smáþjóðaleikunum í Andorra í maí, þar sem hann skoraði 567 stig og 229,3 í úrslitum. Hann vann einnig á Reykjavik International Games í janúar Með Íslandsmetum, Evrópumeistaratitli og bronsverðlaunum á Heimsmeistaramóti hefur hann skrifað sig í sögubækurnar.

 

Ragnar Smári Jónasson - Bogfimimaður - Bogfimifélagið Boginn

Ragnar Smári Jónasson

 Ragnar Smári Jónasson átti glæsilegt ár í bogfimi en hann vann alls sex verðlaun á alþjóðlegum mótum. Á Evrópumóti U21 ára í berboga vann hann silfurverðlaun í liðakeppni karla. Hann vann svo til tveggja bronsverðlauna, bæði í einstaklings- og liðakeppni á EM U21 í víðavangsbogfimi í Póllandi. Í báðum tilfellum er það í fyrsta sinn í sögu íþróttarinnar sem Íslendingur vinnur til verðlaun á EM U21 í víðavangsbogfimi. Ragnar vann einnig brons í liðakeppni á Evrópubikarmóti U21 í Búlgaríu og silfur í einstaklings- og liðakeppni á Norðurlandamóti U21. Hann endaði í 7. sæti í Evrópubikarmótaröð U21 og kom Íslandi í fyrsta sinn í 16 liða úrslit á HM ungmenna, þar sem hann hafnaði í 9. sæti.
Innanlands var Ragnar bikarmeistari BFSÍ, Íslandsmeistari karla innanhúss og vann sjö aðra Íslandsmeistaratitla í einstaklings- og liðakeppni í meistaraflokki og U21 flokki. Hann sló Íslandsmet í meistaraflokki karla og bætti 16 önnur Íslandsmet í félags- og landsliðskeppni. Í lok árs var Ragnar valin Trissubogamaður ársins hjá Bogfimisambandi Íslands.

 

Snævar Örn Kristmannsson - Sundmaður - Breiðablik

Snævar Örn Kristmannsson

Snævar Örn Kristmannsson hefur átt frábært ár í sundi og er einn fremsti sundmaður í flokki einhverfa í heiminum í flugsundi. Hann setti heimsmet í 50 metra flugsundi á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug. Á sama móti setti hann einnig þrjú Evrópumet, í 100 metra flug, 200 metra flug og 100 metra fjórsundi. Snævar keppti á Heimsmeistaramótinu í ágúst, en þar kepptu allir sterkustu sundmenn í hans flokki í heiminum. Á mótinu vann hann til þriggja silfurverðlauna í öllum flugsundsgreinunum 50, 100 og 200 metrum. Á Íslandsmeistaramótum á árinu náði hann í tvö silfur og eitt brons í opnum flokki og hefur í heildina slegið 33 Íslandsmet á árinu. Dugnaður og seigla Snævars skila honum stöðugum framförum og hann stefnir nú á Evrópumótið sem fram fer sumarið 2026. Í lok árs var Snævar Örn svo valinn Íþróttamaður ársins 2025 hjá Íþróttasambandi fatlaðra.

 

Una Borg Garðarsdóttir - Karatekona - Breiðablik

Una Borg Garðarsdóttir

Una Borg er ein efnilegasta en um leið ein af betri karatekonum landsins í dag. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið í landsliði Íslands í karate í nokkur ár og unnið til verðlauna bæði innanlands og erlendis á árinu. Hún varð Íslandsmeistari í kata kvenna 2025 og á bikarmóti KAÍ í nóvember varð hún einnig bikarmeistari í kata kvenna. Hún tók þátt í fjölmörgum alþjóðlegum mótum á árinu. Á Norðurlandamótinu í Danmörku vann hún til bronsverðlauna og einnig á Swedish Open. Á Smáþjóðaleikunum í Andorra í maí endaði Una í 5 sæti í kata, en auk þessa tók hún einnig þátt í Evrópumeistaramótinu í kata. Auk frábærs árangurs á gólfinu er Una Borg virkur félagsmaður sem starfar sem afleysingaþjálfari og liðsstjóri á mótum og er fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina.