Sjálfbærniskýrsla Kópavogs komin út

Í Sjálfbærniskýrslu er lögð áhersla á verkefni sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar og innleiðingu …
Í Sjálfbærniskýrslu er lögð áhersla á verkefni sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar og innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Sjálfbærniskýrsla Kópavogs fyrir árið 2022 hefur verið gefin út á vef Kópavogsbæjar. Skýrslan skiptist efnislega í fjóra hluta. Fjallað er um stjórnarhætti, umhverfi, efnahag og samfélagið og endurspegla umfjöllunarefnin í hverjum hluta fjölbreytni í starfsemi sveitarfélags. Lögð er áhersla á verkefni sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar og innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Meðal nýrra verkefna árið 2022 var Okkar skóli sem snýst um að gefa nemendum tækifæri á að hafa áhrif á umhverfi í skólum. Nokkrir leikskólar í Kópavogi urðu réttindaleikskólar UNICEF, þeir fyrstu í heiminum. Þá var gert áhættumat við deiliskipulag í Vatnsendahvarfi til að meta möguleg áhrif loftslagsbreytinga. Loks má geta þess að í kjölfar gildistöku Farsældarlaga hefur samstarf mennta- og velferðarsviðs í þágu barna og foreldra verið formgert enn frekar með innleiðingarteymi á vegum sviðanna.

„Meðal þess sem við erum stolt af í Kópavogi er að við erum barnvænt sveitarfélag og hefur bærinn hlotið viðurkenningu UNICEF þess efnis. 50% útgjalda bæjarins á árinu 2022 fór til mennta-, æskulýðs- og íþróttamála. Við höfum sett íbúa í öndvegi og teljum innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjálpa okkur við það langtímaverkefni að tryggja lífsgæði íbúa,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri. „Hjá Kópavogsbæ hefur verið staðið vörð um ábyrgan rekstur þar sem aðhalds er gætt í rekstri, skuldir hafa lækkað og álögum er stillt í hóf. Traustur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir þörfum íbúa.“

Fram kemur að íbúar í Kópavogi eru heilt yfir ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins og hefur þróunin verið jákvæð síðustu árin. Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup í Kópavogi fyrir árið 2022 eru 89% íbúa sveitarfélagsins ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Sveitarfélagið er jafnframt á réttri leið í átt að sjálfbærni þegar horft er til þróunar á Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs.

Þá kemur fram að 83% íbúa Kópavogsbæjar þekkja til eða hafa heyrt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samkvæmt könnun Gallup. Það er því stór hópur íbúa sem er meðvitaður um Heimsmarkmiðin en unga fólkið leiðir þar hópinn.

Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, GRI, sem eru alþjóðlega viðurkenndir staðlar um miðlun upplýsinga um samfélagslega ábyrgð sem notaðri eru í yfir 100 löndum.

Sjálfbærniskýrsla 2022