Verklag um íbúasamráð í skipulagsmálum samþykkt

Frá íbúafundi í Kópavogi.
Frá íbúafundi í Kópavogi.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt verklagsreglur um íbúasamráð í skipulagsmálum sem miða að því að efla þátttöku íbúa og auka gagnsæi í skipulagsferlum sveitarfélagsins. Verklagið byggir á lögum og reglugerðum um skipulagsmál, en gengur jafnframt lengra með því að leggja áherslu á virka hlustun, skýra endurgjöf og aðkomu íbúa frá fyrstu stigum skipulagsvinnu.

Í verklagsreglunum er lögð sérstök áhersla á að samráð sé aðlagað að eðli verkefna og að sjónarmið íbúa séu virt og metin. Skipulagsgáttin, sem tekin var í notkun árið 2024, gegnir lykilhlutverki í samráðinu og veitir íbúum aðgang að gögnum, kynningum og möguleika á að skila inn athugasemdum á einum stað.

„Íbúasamráð er ekki bara formlegt ferli – það er grundvöllur trausts og samstöðu í samfélaginu. Með þessum verklagsreglum viljum við tryggja að raddir íbúa heyrist og að íbúar viti hvar og hvernig hægt er að hafa áhrif í skipulagsferlinu, svo þeir geti haft áhrif á mótun nærumhverfisins,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Verklagið er ráðgefandi og ætlað að styðja við fagleg vinnubrögð í skipulagsmálum. Það tekur mið af stefnum Kópavogsbæjar, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og er liður í að skapa sjálfbæra og vistvæna byggð með sterku íbúalýðræði.