- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Dagar ljóðsins í Kópavogi hefjast með ljóðahátíð Jóns úr Vör í Salnum, miðvikudaginn 21. janúar, kl. 17.00. Allir eru velkomnir á ljóðahátíðina en þar verða veitt verðlaun í ljóðasamkeppni Kópavogsbæjar. Dagar ljóðsins standa yfir til 25. janúar en á þeim tíma mega Kópavogsbúar eiga von á því að rekast á ljóð á hinum ólíklegustu stöðum, til dæmis í sundi, í strætó, á vefsíðum, við verslunarkjarna á Nýbýlavegi eða í Smáralind.
Ljóð fást gefins í Bókasafni Kópavogs og í öðrum menningarstofnunum bæjarins og víða um bæ verður pop up ljóðalestur. Markmið Daga ljóðsins í Kópavogi er að vekja áhuga á ljóðalestri og efla ljóðlistina með því að dreifa ljóðum um bæinn.
Miðpunktur Daga ljóðsins verður í Bókasafni Kópavogs. Á annarri hæð safnsins við Hamraborgina verður hægt að nálgast með aðgengilegum hætti ljóðabækur, gamlar og nýjar, til útláns. Höfundur vikunnar á safninu er Gerður Kristný skáld en hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör, ljóðasamkeppni Kópavogsbæjar, árið 2010.
Gestum safnsins býðst einnig að spreyta sig á því að blanda saman þekktum ljóðlínum, á ljóðavegg sem verður, og mynda þar með sitt eigið ljóð. Í afgreiðslu safnsins, eins og í öðrum menningarhúsum bæjarins, fást gefins ljóð eftir Jón úr Vör og félaga í Ritlistarhópi Kópavogs.
Dagar ljóðsins er hátíð skipulögð af Listhúsi Kópavogs í samráði við lista- og menningarráð með styrk úr lista- og menningarsjóði.