Deildarstjórar vilja áframhaldandi fræðslu og jafningjamiðlun

Reyndir og vel menntaðir deildarstjórar leikskóla í Kópavogi vilja áframhaldandi fræðslu og jafningjamiðlun
Leikskóladeild Kópavogs gerði nýverið könnun meðal deildarstjóra leikskóla í bænum til að kanna starfsreynslu þeirra, menntun og hvaða stuðning og þjónustu þeir óska sér frá deildinni.
Niðurstöðurnar sýna að deildarstjórarnir í Kópavogi búa yfir mikilli reynslu og fagþekkingu. Um 70% deildarstjóra hafa starfað í leikskóla í meira en 10 ár og tæplega 40% þeirra hafa 10 ára reynslu eða meira sem deildarstjórar.
Þegar litið er til menntunar kemur í ljós að 74% deildarstjóra eru með háskólamenntun í leikskólakennarafræðum, 11% með aðra háskólamenntun, en 15% eru ekki með háskólamenntun.
 
Ánægja með fræðslumorgna og áhugi á jafningjafræðslu
Í könnuninni kom fram að deildarstjórar eru almennt ánægðir með þá fræðslu sem leikskóladeild hefur boðið upp á, sérstaklega svokallaða fræðslumorgna. Þeir óska eftir að þeim verði fjölgað og sýna mikinn áhuga á aukinni jafningjafræðslu og samræðum milli leikskóla. 
Einnig kom fram að deildarstjórar telja sig almennt vel upplýsta um þá þjónustu sem leikskóladeild býður upp á og hvernig þeir geti nýtt sér hana í daglegu starfi.
 
Samræmdur undirbúningstími eykur samvinnu
Í kjölfar niðurstaðna könnunarinnar hafa leikskólar Kópavogs samræmt undirbúningstíma deildarstjóra, með það að markmiði að auka möguleika þeirra á að sækja fræðslumorgna, eiga samráð sín á milli og efla samstarf innan leikskólanna á nýju skólaári.
 
Metþátttaka á fyrsta fræðslumorgni haustsins
Gaman er að geta þess að 103 af 120 deildarstjórum sóttu fyrsta fræðslumorgun haustsins sem haldinn var í september. Þar var m.a. fjallað um hlutverk deildarstjóra í stjórnendateymum leikskóla, farið yfir niðurstöður könnunarinnar og kynnt fræðsluáætlun leikskóladeildar fyrir skólaárið 2025–2026.
Leikskóladeild Kópavogs þakkar deildarstjórum fyrir þátttöku og áhuga á að efla faglegt starf í leikskólum bæjarins og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á komandi misserum.