Uppdráttur sem sýnir gatnamót Fífuhvammsvegar og Dalvegar eftir breytingu.
Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum á gatnamótum Fífuhvammsvegar og Dalvegar. Markmið framkvæmdanna er að auka umferðaöryggi án þess að draga úr afkastagetu og þjónustustigi gatnamótanna. Íbúar hafa fundið fyrir umferðaraski á meðan framkvæmdir hafa staðið yfir. Verklok voru 30. september en nokkra daga tekur að fínpússa ljósastillingu til þess að flæði umferðar verði sem best í samræmi við markmið framkvæmda.
Komið var að því að endurnýja umferðaljós og var það gert auk þess beygjuljós koma í stað beygjuvasa á þremur stöðum, frá Dalvegi út á Fífuhvammsvegi, frá Fífuhvammsvegi að Dalvegi og frá Fífuhvammsvegi að Smáralind. Með þessum breytingum hefur verið dregið úr slysahættu fyrir gangandi, hjólandi og akandi á gatnamótunum.
Íbúar í hverfinu hafa lengi óskað eftir að umferðaöryggi yrði bætt á þessum stað. Gatnamótin eru á fjölförnum slóðum við Smáralind og meðal annars mikið af börnum og unglingum á ferðinni.
Við undirbúning framkvæmdanna var gerð sviðsmyndagreining og umferðatalning. Áfram verður fylgst með og brugðist við ef umferð mun aukast um Lækjarsmára. Vert er að árétta að afkastageta fyrir fjölskyldubílinn á gatnamótunum á að vera sú sama og fyrir breytingar, samkvæmt greiningum.