Efla samstarf í kringum börn og fjölskyldur

Innleiðingarteymi samþættrar þjónustu: Ásdís Emilía Gunnlaugsdóttir, Ingunn Mjöll Birgisdóttir, Jóh…
Innleiðingarteymi samþættrar þjónustu: Ásdís Emilía Gunnlaugsdóttir, Ingunn Mjöll Birgisdóttir, Jóhanna Lilja Ólafsdóttir og Sólveig Norðfjörð.

Fléttan – farsæld barna í Kópavogi var þema starfsdags mennta- og velferðarsviðs og var markmiðið að tengja fólk saman og kynna fjölbreytta starfsemi sviðanna til að efla samstarf í kringum börn og fjölskyldur, auðvelda samþættingu þjónustu og ýta undir farsæld barna í Kópavogi.

Í starfsdeginum, sem fram fór 27.apríl, var farið yfir sögu Fléttunnar og stöðu innleiðingar samþættrar þjónustu. Fléttubarn var kynnt til sögunnar þar sem farið var yfir farsældarþjónustu fjölskyldunnar frá meðgöngu til fullorðinsára með því að mismunandi starfsmenn kynntu sína aðkomu að þjónustunni. Í lokin komu fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í heimsókn til að ræða farsælt samband fagstétta á léttum nótum.

Bakgrunnur:

Í mars 2018 var stofnaður stýrihópur með það markmiði að auka samvinnu á milli mennta- og velferðarsviðs og veita heildstæðari og betri þjónustu til barna og fjölskyldna í Kópavogi. Samstarf sviðanna fékk nafnið Fléttan þar sem starfsemi sviðanna fléttast saman á marga vegu. Undir Fléttuna falla öll samstarfsverkefni sem snúa að þjónustu við börn og fjölskyldur.

1.janúar 2022 tóku í gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. Lögin taka til allrar þjónustu sem ríki og sveitarfélög veita börnum hvort sem það er inna skóla-, velferðar- eða heilbrigðiskerfis. Aðrir aðilar sem vinna með börnum til dæmis í íþrótta-, lista- og æskulýðsstarfi bera einnig skyldur og geta tekið þátt í samþættingu þjónustu. Innleiðing laganna kallar á miklar kerfisbreytingar og var því stofnað innleiðingarteymi með fulltrúum mennta- og velferðarsviðs Kópavogsbæjar.

Innleiðingarteymi hefur unnið náið með stjórnsýslunni og stjórnendum stofnana til að fá fram sameiginlega sýn. Tengiliðir hafa verið skipaðir í leik- og grunnskólum og málstjórar á velferðarsviði. Rafrænt umsóknarferli er farið af stað og samþætting hafin hjá mörgum fjölskyldum. Næsta skólaár fer af stað víðtæk fræðsluáætlun sem nær til leik-, grunn- og tónlistarskóla, frístundarheimila, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og fleiri aðila sem starfa með börnum í sveitarfélaginu.

Þar sem öll þjónusta við börn og fjölskyldur á mennta- og velferðarsviði fellur nú undir farsældarþjónustu liggur beint við að kalla samstarfið Fléttan – farsæld barna.