Eitt gíg ljósleiðari á hverju heimili

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur …
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur og Ingimar Þór Friðriksson forstöðumaður upplýsingatæknideildar Kópavogs.

Öllum íbúum í þéttbýli Kópavogs stendur nú til boða eitt gíg netsamband um Ljósleiðarann. Í tilefni ljósleiðara-væðingar Kópavogs afhenti Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmda-stjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, skjöld til vottunar á þessum áfanga í uppbyggingu innviða í bænum.

Á dögunum var lokið við tengingu síðustu heimilanna innan þéttbýlis þessa næstfjölmennasta sveitarfélags landsins. Ljósleiðaratengingu allra heimila innan þéttbýlis alls höfuðborgarsvæðisins verður lokið fyrir áramót.

Tilbúin í framtíðina

„Ég fagna þessum tímamótum í Kópavogi. Kröfur um gott netsamband eru alltaf að aukast með aukinni tækninotkun og tækjaeign. Það er því frábært fyrir íbúa að svona góð nettenging standi öllum til boða,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Mikill áfangi

„Það er frábært að geta veitt Kópavogi snjallvottun Ljósleiðarans eftir þessa miklu vinnu við að koma heimilum á Eitt gíg samband,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. „Við gerðum viljayfirlýsingu við bæjaryfirvöld um aukinn hraða uppbyggingar þessara nauðsynlegu innviða hvers nútíma samfélags. Það var vorið 2015 og nú, rúmum þremur árum síðar, erum við að ljúka verkinu. Við höfum trú á því að gæðasamband heimila komi til með að styðja við nútímatækni og veita þeim aukin lífsgæði.“ segir Erling.

Öll heimili í Kópavogi komin á eitt gíg

Fyrstu sveitarfélögin þar sem Ljósleiðarinn var lagður á hvert heimili voru Seltjarnarnes og Akranes. Lokið var við að tengja öll heimili innan þéttbýlis Reykjavíkur árið 2015. Í þessum sveitarfélögum og nokkrum öðrum, sem lokið var við fyrir nokkrum árum, hafa ekki allar tengingar verið uppfærðar í eitt gíg og því er Kópavogur fyrsta sveitarfélagið þar sem hvert einasta tengda heimili nær 1.000 megabita á sekúndu flutningshraða í báðar áttir.