Heilsuhringur við Kópavogstún

Nýr heilsuhringur á Kársnesi.
Nýr heilsuhringur á Kársnesi.

Lagður verður nýr heilsuhringur í Kópavogi, við Kópavogstún. Hringurinn verður 900 metrar að lengd, malbikaður og upplýstur. 

Bæjarráð Kópavogs samþykkti 1. júlí sl. að lagður verði heilsuhringur við Kópavogstún, sambærilegur þeim sem kominn er kringum Kópavogskirkjugarð.

Þessi hringur samanstendur af núverandi stígum en gerðar verða tvær nýjar stígtengingar við Kópavogsgerði og að Kópavogstúni. Heilsuhringurinn verður 900 metra langur með merkingum á 100 metra fresti eins og hringurinn við Kópavogskirkjugarð og áningarstaðir með bekkjum verða þar með reglulegu millibili. Núverandi áningarstaðir nýtast að miklu leyti en þeim verður einnig fjölgað.

Upphafsstaður verður austan við Geðræktarhúsið (gamla hressingarhælið) við Kópavogsgerði 8 með útiæfingartækjum, leiktækjum, dvalarsvæði og gróðri. Þar verður jafnframt sett upp skilti um svæðið.

Ný garðlönd (matjurtagarðar) fyrir almenning verða gerð á svæðinu milli Kópavogsgerðis 8 og 10 og munu vera tilbúin vorið 2022. Garðlönd hafa verið um hríð við gamla Kópavogsbæinn, þar eru þau nokkuð aðþrengd og í of miklum skugga. Þau hafa þrátt fyrir það notið mikilla vinsælda og oft færri komist að ef vilja. Í nýju garðlöndunum tvöfaldast framboð á garðlöndum á Kársnesi.

Heilsuhringurinn verður eins og fyrr segir 900 metra langur, 2-3 metra breiður, malbikaður og upplýstur. Annar hringur, jafnlangur, verður einnig á svæðinu en hann samanstendur af malar- og kurlstígum og gönguleið eftir fjörunni.

Umhverfi heilsuhringsins við Kópavogstúnið er ekki aðeins áhugavert til heilsuræktar og lýðheilsu, heldur er einnig um að ræða mesta sögustað bæjarins. Þarna var Kópavogsþingstaður og bærinn Kópavogur og einnig þau tvö hús í Kópavogi sem hafa verið friðuð; Kópavogsbærinn og Kópavogshælið. Kópavogsleiran er eitt af friðlýstum svæðum bæjarins og hefur alþjóðlegt gildi vegna fuglalífs. 6 fróðleiksskilti er að finna á svæðinu sem segja frá þessu öllu.

Framkvæmdir eru nýhafnar og munu standa fram á vetur, en lýkur vorið 2022.

Heilsuhringur Heilsuhringur_karsnes