Erindaröð um tímann í Bókasafni Kópavogs

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Erindaröð um tímann fer fram í Bókasafni Kópavogs næstu fimmtudaga. Þar munu fyrirlesarar fjalla um málefnið út frá mismunandi sjónarhóli. Jón Bjarnason, sálfræðingur og rithöfundur, ríður á vaðið nú fimmtudaginn 7. febrúar en vikuna þar á eftir kemur Katrín Jakobsdóttir, bókmenntafræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra. Erindin hefjast öll kl. 17:15  og standa í um einn tíma með fyrirspurnum og umræðum.

Forsvarsmenn bókasafnsins hafa áður staðið fyrir erindaröð sem þessari þar sem fjallað hefur m.a. verið um ástina, húmorinn og guð. Þessar samkomur hafa þótt áhugaverðar og aðsóknin fer sívaxandi. 

Í ár munu fjórir fyrirlesarar fjalla um tímann og má gera ráð fyrir því að menntun og staða viðkomandi segi eitthvað til um hvernig hver einstakur tekur á málinu, en allir fá frjálsar hendur um sitt framlag. Þessir halda erindi:

7. febrúar – Jón Björnsson sálfræðingur og rithöfundur.

14. febrúar – Katrín Jakobsdóttir bókmenntafræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra.

21. febrúar – Sigfinnur Þorleifsson guðfræðingur og prestur.

28. febrúar – Sigríður Kristjánsdóttir jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir! Miðað við fyrri reynslu er fólki bent að vera tímanlega á ferðinni til að fá sæti.