Fengu grænfána á fimm ára afmæli

Grænfáni aftendur í Álfhólsskóla 5. júní 2015.
Grænfáni aftendur í Álfhólsskóla 5. júní 2015.

Álfhólsskóli hélt upp á fimm ára afmæli og fagnaði því um leið að fá grænfána Landverndar afhentan. Í tilefni dagsins var gengið fylktu liði frá Digranesi yfir að Hjalla þar sem grænfáninn var afhentur og dreginn að húni. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Katrín Magnúsdóttir starfsmaður Skóla á grænni grein og Sigrún Magnúsdóttir skólastjóri ávörpuðu samkomuna og  Skólahljómsveit Kópavogs lék lög.

Nemendur og starfsmenn gengu svo aftur fylktu liði til í Digranesskóla. Þar var grænfáninn einnig dreginn að húni og svo var Vorhátíð skólans haldin með pompi og pragt en Álfhólsskóli varð til við sameiningu Digranesskóla og Hjallaskóla.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.