Fjölbreytt dagskrá á Safnanótt í Kópavogi

Gestir og gangandi fá hlýjar móttökur
Gestir og gangandi fá hlýjar móttökur

Vélaballett, rússneskur barnakór, erindi um myrk öfl og herkænskuleikur er meðal þess sem verður í boði á Safnanótt í Kópavogi, föstudagskvöldið 10. febrúar. Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Bókasafn Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og ungmennahúsið Molinn verða með fjölbreytta dagskrá fyrir gesti og gangandi frá kl. 19:00 til 24:00. Allir eru velkomnir og frítt er á alla viðburði.

Þetta er í áttunda sinn sem Safnanótt er haldin en hún er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Alls 38 söfn á svæðinu taka þátt að þessu sinni og hafa aldrei verið fleiri.

Yfirskriftin í ár er: Magnað myrkur.

Tilgangurinn er að vekja athygli á því fjölbreytta og áhugaverða starfi sem fram fer í söfnum á svæðinu.

Fjölmargir lögðu leið sína á menningarholtið okkar hér í Kópavogi í fyrra og er einnig búist við góðri þátttöku í ár.

Hægt er að nýta sér sérstakan Safnanæturstrætó sem gengur á milli safnanna frá kl. 19:00 til 24:00.