Fjölbreyttar hugmyndir um Kópavogsdal

Kópavogsdalur er vinsæll meðal íbúa bæjarins.
Kópavogsdalur er vinsæll meðal íbúa bæjarins.

Góðar undirtektir voru við samráðsgátt Kópavogsbúa um framtíðarsýn fyrir Kópavogsdal. Samráð við íbúa er hluti af vinnu um heildarsýn fyrir Kópavogsdal en vinna við hana stendur yfir.

Alls komu 50 tillögur af margvíslegum toga en um fjögur þúsund heimsóknir voru í samráðsgáttina.

Meðal þess sem hlaut mikinn hljómgrunn meðal þeirra sem þátt tóku var að halda Kópavogsdal grænum, hreinsa lækinn, ekki byggja meira í dalnum nema hugsanlega kaffihús eða lítinn veitingastað, setja kaffihús í dalinn, halda honum friðsælum og kyrrlátum, styðja við og bæta íþróttasvæði sem fyrir eru í dalnum, aðskilja hjólastíga frá göngustígum og fjölga og bæta leiksvæði.

Tillaga um skautasvæði í dalnum fékk miklar undirtektir og næstflest hjörtu af öllum innsendum tillögum, eða 103. Aðeins kaffihús í dalnum fékk fleiri hjörtu.

Aðrar tillögur sem fengu töluvert fylgi var hundagerði, hjólabraut fyrir krakka, hjólabrettabraut, rósagarður og að fjarlægja ljósaskilti.

Næsta skref í vinnunni um heildarsýn fyrir Kópavogsdal er að starfshópur mun skoða niðurstöðu úr samráðsgátt auk þess að skoða umsagnir hagaðila og þarfagreiningar.