Fjölmenn og vel heppnuð Vetrarhátíð

Krakkar fylgjast áhugasöm með Einari einstaka á safnanótt í Bókasafni Kópavogs.
Krakkar fylgjast áhugasöm með Einari einstaka á safnanótt í Bókasafni Kópavogs.

Vetrarhátíð í Kópavogi sem haldin var liðna helgi tókst vel til. Nær tvöþúsund manns sóttu Safnanótt í Kópavogi  og um þúsund gestir mættu í sundlaugar Kópavogs á Sundlauganótt. Fjölbreytt dagskrá var í boði í Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs og ungmennahúsinu Molanum á Safnanótt en tilgangur safnanætur er að kynna almenningi þá starfsemi sem er í boði í húsunum allan ársins hring. Þá var opið hús í Salnum og í Héraðsskjalasafni Kópavogs.

Söfnin voru opin frá kl. 19 og fram til miðnættis og var meðal annars hægt að hlýða á tónleika, hlusta á fræðsluerindi, skoða safnageymslur, kaupa notuð föt, fá leiðsögn um ljósmyndasýningu og margt fleira. Gestir voru á öllum aldri, ungir sem aldnir, og voru margir mættir um leið og söfnin luktu dyrum sínum upp.

Sundlauganótt hófst klukkan 16 laugardaginn 6. febrúar og var frítt  í sundlaugarnar í Kópavogi til miðnættis. Dagskrá var í báðum sundlaugum bæjarsins og boðið upp á zumba í vatni, tónleika, jóga og flot.

Safna- og Sundlauganótt eru liður í Vetrarhátíð höfuðborgarsvæðisins en Vetrarhátíð hófst á fimmtudegi og lauk á sunnudegi með fjölskyldudegi í Bláfjöllum.