Fjölmenni á útskriftarsýningu

Útskriftarsýning meistaranema Listaháskóla Íslands í Gerðarsafni.
Útskriftarsýning meistaranema Listaháskóla Íslands í Gerðarsafni.

Margt var um manninn á útskriftarsýningu MA-nema í myndlist og hönnun við Listaháskóla Íslands sem opnuð var í Gerðarsafni laugardaginn 12. apríl. Gerðarsafn og Kópavogsbær gerðu með sér samkomulag síðastliðið haust um að útskriftarsýning meistaranema verði í safninu næstu árin.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri bauð gesti velkomna í ávarpi við opnun sýningarinnar, hann sagði sýninguna efla menningarlíf í bænum og óskaði nemendum til hamingju með áfangann.

Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans minntist sérstaklega á samstarfið við Kópavog í ræðu sinni við opnun sýningarinnar og fagnaði því hversu vel  bærinn tæki á móti skólanum. Þess má geta að í lok apríl verða útskriftartónleikar tónlistarnema við skólann haldnir í Salnum í Kópavogi.

Þá tók Sigrún Birgisdóttir deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ ræðu en hún sagði meðal annars frá því hve margir erlendir nemendur hafa sótt meistaranámið, sem er alþjóðlegt.

Sýningin markar tímamót því þetta er í fyrsta útskriftarsýning meistaranema frá Listaháskólanum. Alls sýna tíu nemendur verk sín á sýningunni og var góður rómur gerður að verkunum sem eru af mjög fjölbreyttum toga, myndir, innsetningar og skúlptúrar.

Á sýningunni í Gerðarsafni má sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms á meistarastigi þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa fengið tækifæri til að efla þekkingu og þróa rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum. Í náminu er árhersla lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á fagsviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Nemendurnir sem eiga verk á sýningunni heita Ásgeir Matthíasson, Björg Vilhjálmsdóttir og Gréta Guðmundsdóttir sem útskrifast af MA námsbraut í hönnun, Halldór Ragnarsson, Katla Rós Völu- og Gunnarsdóttir,  Kristín Helga Káradóttir, Kristín Gunnarsdóttir, Pia Antonsen Rognes, Ragnar Már Nikulásson og Rán Jónsdóttir sem útskrifast af MA námsbraut í myndlist.  

Sýningarstjóri sýningarinnar er Birta Guðjónsdóttir.

Sýningin í Gerðarsafni stendur til 11. maí. Safnið er opið þriðjudaga til sunnudaga frá ellefu til fimm. Aðgangur er ókeypis.