Fjölmennur stofnfundur um Markaðsstofu Kópavogs

Fjölmenni var á fundinum í dag.
Fjölmenni var á fundinum í dag.

Fjölmenni var á stofnfundi Markaðsstofu Kópavogs sem fram fór í bæjarstjórnarsal Kópavogs í dag. Kosið var í stjórn markaðsstofunnar og verður á næstunni auglýst eftir framkvæmdastjóra. Tilgangur hennar er að efla atvinnuþróun og starfa að ferða- og markaðsmálum í Kópavogi.

Þetta mun félagið gera með því að efla samstarf atvinnulífsins, sveitarfélagsins og annarra sem vilja stuðla að uppbyggingu innan Kópavogs og bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu og atvinnustarfsemi á svæðinu.

Kópavogsbær leggur til stofnfé að fjárhæð 8 milljónir króna og er gert ráð fyrir því að stofnaðilar, fyrirtækin í bænum, komi með stofnfé á móti.

Stjórn markaðsstofunnar mun útfæra starfsemina nánar en í aðalstjórn eru: Sturla Eðvaldsson, Ari Þorvarðarson, Eygló Karólína Benediktsdóttir, Theódóra Þorsteinsdóttir, Sigurjón Jónsson, Garðar H. Guðjónsson og Pétur Ólafsson.

Fulltrúar fjörutíu fyrirtækja voru á stofnfundinum. Bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, setti fundinn og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, stýrði fundinum. Vilhjálmur lýsti yfir mikilli ánægju sinni með stofnun þessa samstarfsvettvangs fyrirtækja og stofnana í Kópavogi.