Fjölsóttir Ormadagar

Frá Ormadögum í Kópavogi 2016
Frá Ormadögum í Kópavogi 2016

Fjölmargir gerðu sér ferð í menningarhúsin í Kópavogi á sumardaginn fyrsta. Þá var bryddað upp á þeirri nýbreytni að vera með opið hús og bjóða fjölbreytta dagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Dagskráin er hluti af barnamenningarhátíð sem fram fer þessa dagana á höfuðborgarsvæðinu og hluti af Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs.

Myndlistarmenn á vegum Gerðarsafns voru með listasmiðjur á túninu milli menningarhúsanna og í Bókasafni Kópavogs var fullt út úr dyrum á brúðuleiksýningu um Pétur og úlfinn. Í Náttúrufræðistofu Kópavogs gátu börn skoðað orma í gegnum smásjá en einnig var í menningarhúsunum hægt að fara á hljóðfærasmiðjur og á tónleika.

 Ókeypis var á allar smiðjur og viðburði. Yfirskrift dagskrárinnar í Kópavogi er ferðalög. 

Fyrr í vikunni var öllum leikskólabörnum í Kópavogi, yfir tvö þúsund börnum, boðið að koma í heimsókn í menningarhús bæjarins þar sem lögð var áhersla á að fræða þau um bækur, vísindi, tónlist og fleira. Dagskrá Ormadaga lýkur sunnudaginn 24. apríl með barnamenningarmessa í Kópavogskirkju.