Föðmuðust í 2 mínútur

Börn í Smárahverfi í Kópavogi söfnuðust saman í Fífunni í tilefni baráttudags gegn einelti.
Börn í Smárahverfi í Kópavogi söfnuðust saman í Fífunni í tilefni baráttudags gegn einelti.

Nemendur í Smárahverfi í Kópavogi spreyttu sig á Íslandsmeti í faðmlagi þegar þau knúsuðust í tilefni Vináttugöngu í bænum. Börnin gengu fylktu liði í Fífuna þar sem þau mynduðu hjarta, tóku víkingaklapp og föðmuðust í tvær mínútur, sem mun vera Íslandsmet.

Vináttuganga var haldin í öllum skólahverfum í Kópavogi í 8. og 9. nóvember í tilefni baráttudags gegn einelti, 8. nóvember. Þetta er í fjórða sinn sem gengið er gegn einelti í Kópavogi og tóku nemendur leik- og grunnskóla og starfsfólk skóla og frístundaheimila þátt í viðburðinum, alls um átta þúsund manns. Mikil ánægja ríkti með hvernig til tókst en nemendur sungu, dönsuðu og gengu saman um allan bæ.

Markmið Vináttugöngunnar er að stuðla að jákvæðum samskiptum, vekja athygli á mikilvægi vináttu og virðingar og benda á að einelti er ofbeldi sem ekki verður liðið. Gangan eflir samstöðu og vináttu barna og hefur þannig haft jákvæð áhrif á skólastarf í bænum. Með göngunni  leggur Kópavogsbær sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn einelti.