Forvarnardagur í forvarnarviku

Frá viðburði í Forvarnarviku Kópavogs.
Frá viðburði í Forvarnarviku Kópavogs.

Miðvikudagurinn 5. október 2022 er Forvarnardagurinn haldinn í sautjánda sinn. Forvarnarvika Kópavogs er haldin í tengslum við daginn.

Forvarnardagurinn haldinn í sautjánda sinn í grunnskólum landsins og í tólfta sinn í framhaldsskólum.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er beint sérstaklega að nemendum í 9. bekk grunnskóla og á 1. ári í framhaldsskólum. Dagskrá í tengslum við Forvarnardaginn snýst um að nemendur ræði meðal annars um hugmyndir sínar og tillögur um samverustundir með fjölskyldu og skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, en þetta eru á meðal verndandi þátta gegn áhættuhegðun.

Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is

Forvarnarvika Kópavogs

Í tengslum við Forvarnardaginn, stendur Kópavogsbær að Forvarnarviku Kópavogs. Menntabúðir er haldnar fyrir starfsfólk skóla og frístunda/félagsmiðstöðva þar sem starfsmenn fá fræðslufyrirlestur um samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga og boðið er upp á vinnustofur þar sem kennarar og starfsfólk frístunda/félagsmiðstöðva kynna góð verkefni.

Mánudagskvöldið bauðst foreldrum fyrirlestur frá Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsókn og greiningu þar sem hún fjallaði um helstu niðurstöður er snýr að samfélagsmiðlanotkun barna í Kópavogi, og hvaða þættir bæði börn og foreldrar þurfa að tileinka sér með það að leiðarljósi að nálgast samfélagsmiðla með jákvæðum og öruggum hætti.

Félagsmiðstöðvar Kópavogs og Ungmennahúsið Molinn bjóða svo ungu fólki í vikunni upp á vinnustofur og fræðslu þar sem áhersla er lögð á jákvæða nálgun gagnvart samfélagsmiðlum sem eru í umhverfi ungs fólks, með áherslu á að tileinka sér góða siði sem og öryggi. Einnig munu kennarar taka frá tíma í vikunni þar sem unnið er með efni um jafnvægi í stafrænni notkun og samfélagsmiðla, og er efnið flokkað eftir árgöngum og má nálgast námsefnið á vefsíðu stafrænnar kennslu í Kópavogi. 

Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd verður svo með fyrirlestur á upptöku sem verður aðgengilegur foreldrum og starfsfólki skóla og frístunda. Í fyrirlestrinum fer Skúli yfir niðurstöður úr víðtækri rannsókn á stafrænu umhverfi barna á Íslandi. Vinsælustu samfélagsmiðlarnir, aldurstakmörk, nethegðun, deiling nektarmynda, klám, öryggi á netinu og tölvuleikir.

Horfa á fyrirlestur