Fótboltaópera í tilefni EM í fótbolta

Fótboltaópera á Óperudögum í Kópavogi.
Fótboltaópera á Óperudögum í Kópavogi.
Óperudagar í Kópavogi verða settir laugardaginn 28. maí með fjölskyldustund í Salnum.

Þar verður frumflutt ný íslensk fótboltaópera í tilefni EM í fótbolta. Óperan er eftir Helga R. Ingvarsson en sex einsöngvarar, fimmtán börn úr Skólakór Kársness og einn trommuleikari flytja óperuna sem er um tíu mínútur að lengd. Óperudagar í Kópavogi er ný óperuhátíð en dagskráin fer að mestu fram dagana 1.- 5. júní. 

Að lokinni fótboltaóperunni á laugardag verður börnum boðið að skoða leynda kima Salarins og kynnast undirbúningi hjá söngvurum áður en þeir stíga á svið. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir. Á túninu verða fótboltamörk og ýmsar uppákomur í boði sem tengjast fótboltaíþróttinni. Á sama tíma verður flugdrekanámskeið á Bókasafni Kópavogs.

Á Óperdögum er í boði fjölbreytt dagskrá þar sem flytjendur og áhorfendur munu eiga í fjörugu samtali við óperuformið. Staðsetning viðburða verður á ýmsum stöðum, m.a. í Salnum, Gerðarsafni, Leikfélagi Kópavogs, Smáralind og víðsvegar um bæinn.

Ókeypis er á alla viðburði nema hádegistónleikana og verður að skrá þátttöku áoperudagar@operudagar.is.

Á meðal viðburða má nefna Óperugöngu ogKrakkagöngu þar sem gestir verða leiddir um hjarta Kópavogs og munu ýmsar óvæntar óperulegar uppákomur bíða þeirra. Göngurnar hefjast við Garðskálann, kaffihúsið í Gerðarsafni sem er í menningarkjarna Kópavogsbæjar.

Hádegistónleikar Óperudaga í Kópavogi verða sex talsins. Þar koma ungir söngvarar fram sem starfa erlendis og því er um einstakt tækifæri að ræða til að hlýða á þá hér á landi. Með þeim spila píanistar hátíðarinnar.  

Allar nánari upplýsingar má finna á www.operudagar.is og www.karolinafund.com undir heitinu Óperudagar í Kópavogi.

Listrænn stjórnandi Óperudaga er Guja Sandholt og verkefnastjóri er Jóhanna Kristín Jónsdóttir. Hátíðin er unnin í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi og að mestu fjármögnuð  með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogs, en aðrir styrktaraðilar eru þýska sendiráðið, Herramenn, Svansprent, GA smíðajárn, Pera Óperukollektíf, Byko auk framlaga á Karolina Fund.