Fræðsludagar í félagsmiðstöðvum

Unglingar í Igló.
Unglingar í Igló.

Félagsmiðstöðvar í Kópavogi undir Frístunda-og forvarnardeild standa fyrir fræðsludögum dagana 3. og 7. nóvember 2014 og í sömu viku verður félagsmiðstöðvadagurinn haldin hátíðlegur þann 5. nóvember. Fræðsludagarnir eru ætlaðir foreldrum og unglingum í Kópavogi.

Mánudagurinn 3. nóvember

ForeldrarUnglingar, netið og snjallsímar Óli Örn Atlason uppeldis- og menntunarfræðingur og forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Fönix ræðir við foreldra um hvað unglingarnir eru að gera á netinu og hvernig þau nota netið og snjallsímana.  Í fyrirlestrinum verða kynnt ýmis forrit og öpp sem algeng eru í unglingaheiminum. Sennilegast allt sem þú vildir vita um unglinginn þinn – og svo miklu meira.

Staðsetning og tími: Pegasus (Álfhólsskóli) kl. 17.00-19.00.

UnglingarERTU SVONA EÐA HINSEGIN?  Skiptir það máli?  Sigga Birna Valsdóttir er fjölskyldu- og leiklistarmeðferðarfræðingur og leiklistarkennari, er leiðbeinandi á sjálfstyrkinganámskeiðum í Foreldrahúsi og er ráðgjafi hjá Samtökunum ´78. Sigga Birna fjallar um þessa margumtöluðu sjálfsmynd, staðalímyndir, fordóma og alls konar hinsegin mál sem koma okkur öllum við.

Skiptir máli hvort þú ert stelpa eða strákur? Skiptir máli hvort þú ert lítil/l eða stór? Skiptir máli hvort þú fílar rokk eða popp? Skiptir máli hvort þú dansar ballett eða spilar fótbolta? Skiptir máli hvort þú lest ástarsögur eða teiknimyndabækur? Skiptir máli hvort þú ert hinsegin eða ekki?

Staðsetning og tími: Pegasus (Álfhólsskóli) kl. 20.00-22.00.

Miðvikudagurinn 5. nóvember

Dagskrá félagsmiðstöðvadagsins verður breytileg á milli félagsmiðstöðva en á það sameiginlegt að þar fær unglingamenningin að njóta sín. Víða verður boðið upp á kaffi, kakó, vöfflur og annað meðlæti en sums staðar er veitingasala fjáröflun unglinganna vegna ferðalaga eða annarra verkefna.  Allir eru velkomnir!

Sama dag munu unglingar í Kópavogi standa fyrir „Lifandi bókasafni“ í samstarfi við Samfés (samtök félagsmiðstöðva á Íslandi ) í Smáralind frá kl 16.00-18.00. Með þessu gefst gestum og gangandi færi á að ræða við unglinga og komast að því með beinum hætti hvað unglingar eru með á heilanum.

Föstudagurinn 7. nóvember

Unglingar: Fokk me - Fokk you - Andrea Marel og Kári Sigurðsson eru vel kunnug unglingum enda starfa þau bæði í félagsmiðstöðvum inn í Reykjavík. Rauði þráðurinn í þessum fyrirlestri er sjálfsmyndin, samfélagsmiðlar og samskipti kynjanna. Leiðbeinendur fræða og ræða það sem brennur á unglingum í dag í bland við opinskáar umræður þar sem allir eiga rétt á sinni skoðun.

Staðsetning og tími: Þeba (Smáraskóli) kl. 20.00-22.00.