Fræðsludagur í trjásafninu í Meltungu

Yndisgarður í Kópavogi
Yndisgarður í Kópavogi

Laugardaginn 28. maí verður haldinn árlegur fræðsludagur  í trjásafninu í Meltungu í Fossvogsdal frá 13.00 til 16.00. Boðið verður upp fjölbreytta fræðslu um ræktun, víðsvegar í trjásafninu en mæting er við lysthúsið í Yndisgarðinum kl. 13:00 og þar lýkur henni með samsæti klukkan 16.00. Næg bílastæði við Kjarrhólma. 

Dagskráin er mjög fjölbreytt eins og undanfarin ár, rætt verður um ávaxtatré og matjurtir, rósarækt og gróðursetningu í sumarbústaðalöndum svo eitthvað sé nefnt. Henni lýkur svo með með samsæti í Yndisgarðinum þar sem boðið verður upp á grillpylsur, gosdrykki og vatn.

Fræðsludagurinn er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Garðyrkjufélags Íslands og Yndisgróðursverkefnisins.

Dagskráin

·         Í Yndisgarðinum mun Steinunn Garðarsdóttir kynna garðinn og Yndisgróðursverkefnið. Einnig verður kynnt tilraunaverkefni í notkun fjölærra þekjuplantna og skrautgrasa.

·         Í Aldingarðinum verður Jón Guðmundsson frá Akranesi við mælingar og klippingu ávaxtatrjáa og berjarunna um leið og hann fræðir áhugasama um ræktun þeirra.

·         Við garðlöndin mun Jóhanna Magnúsdóttir frá matjurtaklúbbi Garðyrkjufélagsins fræða gesti um matjurtaræktun og klúbbinn, ásamt því að sýnikennsla verður á því hvernig sett er niður í matjurtagarð.

·         Í Sígræna garðinum verður Hannes Þór Hafsteinsson og fjallar um plöntur sem þar eru. Einnig kynnir hann  nýstofnaðan klúbb Garðyrkjufélagsins um sígrænar plöntur eða „dekurplöntur“.

·         Unnið er að gerð norræns rósagarðs í trjásafninu og mun Vilhjálmur Lúðvíksson frá rósaklúbbi Garðyrkjufélagsins kynna það verkefni og rósaklúbbinn, ásamt því að fræða gesti um rósarækt almennt.

·         Einnig verður unnið að gróðursetningu trjáa og runna í trjásafninu og mun Karl Guðjónsson sjá um það. Þarna er tilvalið að fræðast um „villtar“ gróðursetningar, líkt og í sumarbústaðalöndum.

·         Að auki mun Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar, leiða fræðslugöngu um trjásafnið í Meltungu ásamt Kristni H. Þorsteinssyni, fræðslu- og verkefnastjóra Garðyrkjufélags Íslands.