Fræðsluganga í trjásafninu í Meltungu

Úr Trjásafninu.
Úr Trjásafninu.

Kópavogsbær og Sögufélag Kópavogs hafa sl. áratug eða svo staðið fyrir fræðslugöngum víðsvegar um bæinn í námunda við dag íslenskrar náttúru þann 16. september, þó ekkert hafi orðið af þessum viðburði sl. tvö ár vegna Covid19. Á laugardaginn kemur, 17. september, verður þráðurinn tekinn upp að nýju og bæjarbúum og öðrum gestum boðið upp á fræðslugöngu um trjásafn Kópavogsbæjar í Meltungu, austast í Fossvogsdal, í leiðsögn staðkunnugra.

Gróðursetning í trjásafnið í Meltungu hófst fyrir 25 árum og er þar nú að finna um 1.200 tegundir og yrki trjáa og runna, margra sjaldgæfra, og er safnið orðið eitt stærsta sinnar tegundar hérlendis. Í trjásafninu er að finna þemagarða og -svæði, s.s. Rósagarðinn, Yndisgarðinn, Aldingarðinn, Sígræna garðinn, Aspaskóginn, garðlöndin o.fl. Sjón er sögu ríkari.

Lagt verður af stað frá bílastæðunum við austurenda Kjarrhólma kl. 13:00 og er áætlað að göngunni ljúki um kl. 15:00. Boðið verður upp á grillpylsur á staðnum að göngu lokinni.