Fræðslustarf menningarhúsanna kynnt

Fræðslustarf í menningarhúsum kynnt í Salnum.
Fræðslustarf í menningarhúsum kynnt í Salnum.

Sameiginleg kynning á skipulögðu fræðslustarfi menningarhúsa Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar var haldin í fyrsta sinn í vikunni og fór hún fram í Salnum í Kópavogi. Á kynningunni gafst starfsfólki leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva sveitarfélaganna færi á að kynna sér þá fræðslu og viðburði sem í boði eru í vetur enda eru söfn og menningarhús mikilvægur liður í menntun barna og ungmenna. Stefnt er að því að þessi sameiginlega kynning sveitarfélaganna verði árviss og jafnvel í samvinnu við Reykjavík.

Alls ellefu ólík menningarhús kynntu fjölbreytta starfsemi sína og má nefna tónleikahús, myndlistarsöfn, hönnunarsafn, heimili Halldórs Laxness, náttúrugripasafn, tónlistarsafn og bókasöfn. Í þessum húsum gefst nemendum kostur á að upplifa, læra og skilja betur menningu, vísindi og listir og að tjá sig í gegnum listir og skapandi greinar. Fjölmargir skólar koma reglulega með hópa og nýta heimsóknina til kennslu og fræðslu.

Menningarhúsin sem kynntu fræðslustarf sitt eru: Gerðarsafn, Salurinn, Hafnarborg, Gljúfrasteinn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Hönnunarsafn Íslands, Tónlistarsafn Íslands, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Bókasafn Kópavogs, Bókasafn Garðabæjar og Bókasafn Hafnarfjarðar.