Frítt í sund, á tónleika og söfn fyrir framhaldsskólanema

Salurinn og Gerðasafn
Salurinn og Gerðasafn

Framhaldsskólanemendur um land allt fá ókeypis bókasafnsskírteini, verður boðið á tiltekna tónleika í Salnum og fá frítt í sund á meðan á verkfalli kennara stendur. Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs í morgun. Nemendur eru auk þess hvattir til þess að nýta sér ókeypis aðgang að Gerðarsafni og öðrum söfnum í Kópavogi.

Með framtakinu vill Kópavogsbær kynna ungu fólki listir, menningu, og aðra þá afþreyingu sem í boði er í Kópavogi en um leið stuðla að fræðslu og virkni framhaldsskólanema á meðan á verkfalli stendur.

„Við vonumst sannarlega til þess að framhaldsskólanemendur nýti tækifærið og kynni sér það sem Kópavogur hefur upp á að bjóða,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Í verkfallinu verður boðið upp á námskeið og fyrirlestra í Bókasafni Kópavogs. Einnig stendur leiðsögn um Héraðskjalasafn Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs nemendum til boða. Þá verður ókeypis á tónleikana Við slaghörpuna á laugardag og veittur afsláttur af tónleikum Sætabrauðsdrengjanna miðvikudaginn 26. mars. Þá geta framhaldsskólanemendur nýtt sér góða lesaðstöðu í aðalsafni bókasafnsins og lesaðstöðu í ungmennahúsinu Molanum, sem einnig ætlar að lengja opnunartíma sinn í verkfallinu. Eins og alltaf er ókeypis inn á Gerðarsafn en þar stendur sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands yfir.

Bent er á að öll þessi söfn eru á sama reitnum og því stutt að labba á milli. Þaðan er örstuttu spölur yfir í Sundlaug Kópavogs en einnig er ókeypis í Salalaug í verkfallinu.

Framhaldsskólanemendum verður kynnt tilboðið í gegnum nemendafélög skólanna. Þá eru ítarlegar upplýsingar að finna á vef Kópavogsbæjar. Til að nýta sér tilboðin þurfa nemendur að framvísa nemendaskírteini.

Gerðarsafn: Frítt inn á ljósmyndasýningu Sigurgeirs Jónassonar Eyjar í 65 ár og á sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Sýningarnar standa yfir til 23. mars. Gerðarsafn er opið alla daga, nema mánudaga, frá  kl.11 til 17.

Bókasafn Kópavogs: Ókeypis bókasafnsskírteini fyrir nemendur framhaldsskóla næstu tvær vikurnar gegn framvísun nemendaskírteinis. (Gjaldið er 1.700 krónur á ári en ókeypis er fyrir börn að átján ára aldri. Með þessu fá nemendur á aldrinum 18 til 20 ára frítt skírteini).

 

Eftirfarandi námskeið og fyrirlestrar í Bókasafni Kópavogs:

 

  • Námskeið/aðstoð við að klippa, setja inn tal og texta við video á Pc tölvur, Makka og Ipad. Mánudaginn 24. mars kl. 13:00 til 15:00 í Kórnum á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs. (Þátttakendur þurfa sjálfir að mæta með tölvur og klippiforrit).
  • Fimmtudaginn 20. mars kl. 17:15 talar Margrét Sigfússdóttir húsmæðrakennari um nýtingu og meðferð matar.
  • Föstudaginn 21. mars kl. 13:00 til 15:00. Stutt ritsmiðja þar sem verður rætt hvernig skapa megi persónur sem knýja áhugaverðar sögur. Arndís Þórarinsdóttir sér um smiðjuna.
  • Fimmtudaginn 27. mars kl. 17:15 mun  Ásdís Jóelsdóttir kennari, rithöfundur og hönnuður tala um nýtingu á fatnaði og textílvörum á heimili.
  • Hægt er að fá að nota Kórinn á fyrstu hæð safnsins á morgnanna til að vinna saman verkefni allt að 15 manns geta með góðu móti unnið þar saman.

Bókasafn Kópavogs, aðalsafn, er opið frá kl. 10 til 19 mánudaga til fimmtudaga, frá kl. 11 til 17 föstudaga og frá kl. 13 til 17 laugardaga.

Salurinn: Ókeypis á tónleikana Við slaghörpuna með Jónasi Ingimundarsyni, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Guðrúnu S. Gísladóttur, laugardaginn 22. mars, kl. 10.45 gegn framvísun nemendaskírteinis og á meðan húsrúm leyfir. 20% afsláttur á tónleika Sætabrauðsdrengjanna, með Garðari Thor Cortes, Gissuri Páli Gissurarsyni, Bergþóri Pálssyni og Viðari Gunnarssyni ásamt Jóhanni G. Jóhannssyni píanóleikara miðvikudaginn 26. mars gegn framvísun nemendaskírteinis.

Í Héraðsskjalasafni KópavogsNáttúrufræðistofu Kópavogs og Tónlistarsafni Íslands geta framhaldsskólanemar pantað leiðsögn um söfnin en þar má finna fróðleik um náttúru og vísindi, varðveiðslu gagna og tónlistarsögu Íslands. Í Héraðsskjalasafni verður hægt að panta bíósýningu um sögu Kópavogs.

Héraðsskjalasafnið er opið frá kl. 10 til 16 alla virka daga. Náttúrufræðistofan er opin alla virka daga frá kl. 10 til 19, föstudaga frá kl. 11 til 17 og laugardaga frá kl. 13 til 17. Tónlistarsafn Íslands er opið alla virka daga frá kl. 10 til 16.

Molinn, ungmennahús: Húsið opnar fyrr á morgnana eða kl. 10:00 í stað 14:00 og er opið fram til kl. 23.

  • Námsaðstaða: Áhugasamir fá næði og hvatningu til að stunda námið þrátt fyrir verkfall.
  •  Myndlistarsmiðja: Boðið verður upp á sérstakt námskeið þar sem farið er í undirstöðuatriði olíumálunar.
  • Umræðuhópar: Réttindi ungs fólks og kynning á styrkjaáætluninni Erasmus.
  • Útivistarsmiðja: Langar og stuttar gögur um á fjöll og útivistasvæði í nágrenni Kópavogs.

 

Sundlaug Kópavogs og Salalaug: Ókeypis í sund gegn framvísun nemendaskírteinis á meðan á verkfalli stendur. Opnunartími sundlauganna er frá mánudegi til föstudags frá kl. 6.30 til 22 og á laugardegi og sunnudegi frá kl. 8 til 18.