Frumsýning hjá Leikfélagi Kópavogs

Leiksýningin
Leiksýningin "Þrjár systur"

Leikfélag Kópavogs frumsýnir Þrjár systur eftir Anton Tsjekhov í Leikhúsinu við Funalind í kvöld 31. janúar. Æfingar hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Næstu sýningar verða síðan sunnudaginn 2. febrúar, föstudaginn 7. og sunnudaginn 9. febrúar. Lista- og menningarsjóður Kópavogsbæjar veitir leikfélaginu rekstrarstyrk á ári hverju með það að markmiði að auðga menningarlífið í bænum.

Þrjár systur telst löngu orðið klassískt verk, það er skrifað snemma á síðustu öld en efni þess á þó erindi á öllum tímum. Brugðið er upp mynd af fólki sem elur með sér drauma um betra líf en hefur ekki döngun í sér til að láta þá rætast.

Um 15 leikarar taka þátt í sýningunni en auk þeirra leggja fjöldamargir hönd á plóg. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson sem vakið hefur mikla athygli á síðustu árum fyrir vandaðar og áleitnar sýningar. Klæmint Henningsson Isaksen sér um leikmynd, Dýrleif Jónsdóttir um búninga, Skúli Rúnar Hilmarsson um lýsingu og Hörður Sigurðarson um hljóðmynd og myndvinnslu. Vilborg Valgarðsdóttir og Sara Dögg Davíðsdóttir annast förðun. 

Nánar má lesa um sýninguna og starfsemi félagsins á www.kopleik.is.