Fullt hús á vel heppnuðu málþingi barna og ungmenna

Guðmundur Ingi Kristinsson barna- og menntamálaráðherra og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri með sí…
Guðmundur Ingi Kristinsson barna- og menntamálaráðherra og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri með sína uppáhaldsgrein úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Börn og ungmenni ræddu réttindi barna og málefni sem eru þeim hugleikin á málþingi sem efnt var til í Salnum í Kópavogi í morgun, fimmtudaginn 20. nóvember. Einnig komu börn úr leikskólunum Álfatúni og Furugrund fram og sungu fyrir gesti.

Málþingið var haldið í tilefni afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og afmælis Kópavogsbæjar og unnið í samstarfi við UNICEF á Íslandi.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra voru viðstödd málþingið og ávörpuðu gesti.

Meðal þess sem fram kom hjá þeim sem tóku þátt í umræðum var ósk um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu, ákall til foreldra um að fylgjast vel með samfélagsmiðlanotkun barna sinna, og gagnrýn hugsun barna gagnvart efni á samfélagsmiðlum verði styrkt.

Þá ræddu þátttakendur nauðsyn þess að hvetja börn til lesturs og að framboð bóka og afþreyingarefnis á íslensku verði aukið. Þau sögðu ánægjulegt að opnunartími félagsmiðstöðva yrði aukinn með áherslu á miðstigið en bentu jafnframt á að gera þyrfti sýnilegra hinsegin starf félagsmiðstöðva. Þá þyrfti að gera umhverfi í skólum fyrir hinsegin börn öruggara.

„Réttindi barna eiga að vera leiðarljós í allri stefnumótun og starfsemi sveitarfélagsins. Með verkefninu Barnvænt sveitarfélag viljum við tryggja að börn hafi raunveruleg áhrif á umhverfi sitt og að ákvarðanir sem varða þau séu teknar með þeirra sjónarmið í huga,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í ávarpi sínu.

Á málþinginu var frumsýnt nýtt myndband um Kópavog sem barnvænt sveitarfélag. Kópavogsbær hefur innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fékk viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag frá UNICEF árið 2021 sem var endurnýjuð árið 2024.

"Sem mennta- og barnamálaráðherra hefur það verið mér mikilvægt að styðja við verkefni sem stuðla að farsæld og bættum hag barna. Verkefnið barnvæn sveitarfélög er eitt af þessum mikilvægu verkefnum sem UNICEF hefur leitt með góðum árangri með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Það er afar ánægjulegt að sjá hversu kröftugur Kópavogsbær er búinn að vera í innleiðingu á Barnasáttmálanum í gegnum verkefnið og ávinningurinn er ótvíræður," sagði Guðmundur Ingi Kristinsson barna og menntamálaráðherra í sínu ávarpi.

Fullt hús var á málþinginu sem var öllum opið. Á meðal gesta voru börn úr leik- og grunnskólum, foreldrar, bæjarfulltrúar, starfsfólk og aðrir gestir.