Gangandi í forgangi

Krossbraut hefur verið komið fyrir á gatnamótum Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar.
Krossbraut hefur verið komið fyrir á gatnamótum Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar.

Ný umferðaljós og merkingar við gatnamót Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar hafa verið tekin í notkun. Öryggi vegfarenda var haft að leiðarljósi við framkvæmdina en foreldrar á Kársnesi hafa óskað eftir auknu umferðaröryggi gangandi á þessum gatnamótum þar sem þau eru í gönguleið skólabarna.

Með breytingunum eru það gangandi vegfarendur sem eiga forganginn á gatnamótunum en ekki ökutæki, en um gatnamótin fer mikill fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda meðal annars á leið í og úr skóla sem fyrr sagði en einnig í Sundlaug Kópavogs.

Gangandi eiga þess kost nú að ganga þvert yfir gatnamótin og stytt þannig leið sína í stað þess að þurfa að fara fyrst yfir eina götu og svo aðra. Rautt ljós er á alla umferð ökutækja á meðan gangandi fara yfir gatnamótin. Um er að ræða nýjung á Íslandi en þetta fyrirkomulag er vel þekkt erlendis.

Kross hefur verið málaður á götuna sem bæði leiðbeinir gangandi um hvaða leið þeir eiga að fara og lífgar upp á umhverfi gatnamótana. Þá eru fótspor máluð á krossinn til að skýra enn frekar fyrir vegfarendum hvernig þeir eiga að labba yfir.

Krossinn er málaður með sérstöku „nonslip“ efni sem inniheldur kvars. Lítilsháttar tíma tekur fyrir efnið að slípast til og ná fullu viðnámi en samkvæmt framleiðanda hefur þetta efni reynst vel á Norðurlöndunum og er mikið nýtt þar án vandræða. Efnið uppfyllir Evrópu staðla EN-1871 og EN-1436 fyrir yfirborðsmerkingar og viðnám og er sérstaklega hannað þar sem búast má við bif- og reiðhjóla umferð.