Gefa fyrirtækjum leikskólamyndir

Leikskólabörn í Kópavogi
Leikskólabörn í Kópavogi

Leikskólabörn á Læk, sem er efsta deildin í Álfatúni, skelltu sér í strætóferð á dögunum ásamt kennurum sínum og sóttu heim fyrirtæki í Hamraborginni. Þau gáfu fyrirtækjunum myndir með upplýsingatexta um starfsemi leikskólans. Þetta gerðu þau í tilefni þess að dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur um land allt, fimmtudaginn 6. febrúar.

Markmiðið með deginum er að beina sjónum fólks að mikilvægi leikskóla í samfélaginu. Foreldrar leikskólabarnanna í Álfatúni voru einnig hvött til að taka með sér myndir á vinnustaði sína til að vekja athygli á deginum.

Í ferði sinni komu leikskólabörnin einnig við á menntasviði Kópavogsbæjar, í Fannborg 2, og sungu þar nokkur lög fyrir starfsfólkið.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar börnin koma galvösk út úr blómabúðinni í Hamraborginni; glöð og ánægð með daginn enda var þeim vel fagnað hvar sem þau komu.