Gerðarsafn sýnir Íslensku teiknibókina

Illugi Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Guðrún Nordal, Ólafur Ragnar Grímsson, Margrét Þórhildur Da…
Illugi Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Guðrún Nordal, Ólafur Ragnar Grímsson, Margrét Þórhildur Danadrottning, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðbjörg Kristjánsdóttir

Margrét Þórhildur Danadrottning var viðstödd foropnun sýningar í Gerðarsafni í dag um Íslensku teiknibókina. Sýningin er samstarfsverkefni Gerðarsafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilefnið er 350 ára afmæli Árna Magnússonar. 

Á sýningunni, sem stendur yfir fram í febrúar 2014, verður hægt að skoða Íslensku teiknibókina sem Árni Magnússon forðaði frá glötun. Þetta er í fyrsta sinn sem bókin er sýnd opinberlega en hún var flutt heim frá Kaupmannahöfn árið 1991. 

Bókin inniheldur safn svokallaðra fyrirmynda frá 14. og 15. öld.  Teiknibókin er einstæð meðal íslenskra miðaldahandrita. Hún er ein af fáum teiknibókum frá miðöldum sem varðveist hafa í Evrópu og sú eina á Norðurlöndum.

Í tengslum við sýninguna gefur forlagið Crymogæa út bók Guðbjargar Kristjánsdóttur um handritið með vönduðum myndum og ítarlegri umfjöllun. Þar varpar hún  ljósi á uppruna Íslensku teiknibókarinnar og höfunda hennar.