Gervigras í Kórnum

Kórinn í Kópavogi.
Kórinn í Kópavogi.

Frá því að nýtt gervigras var tekið í notkun í Kórnum um áramótin hefur gúmmíryk loðað við skó og sokka íþróttaiðkenda. Rykið virðast loða við stráin á vellinum vegna rafleiðni (stöðurafmagns) og berast þess vegna á skó iðkenda.

Gripið hefur verið til ráðstafana á borð við að ryksuga völlinn og bleyta. Magn fínefnis hefur minnkað en er þó ekki ásættanlegt enn sem komið er.

Áfram verða gerðar ráðstafanir til að minnka fínefnið með því að ryksuga völlinn og aukinn kraftur settur í það.

Þá verður völlurinn bleyttur með sápuefni samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda. Vonast er til þess að í kjölfarið dragi úr ryki í grasinu. Jafnframt verða loftgæði sannreynd með mælingum. Gögn málsins hafa verið send til skoðunar til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðisins.

Tekið skal fram að í vellinum er EPDM efni, sem er sérstaklega framleitt til notkunar á gervigrasvöllum. Það efni er notað í fjölda nýlegra gervigrasvalla hér á landi innandyra og utan.

Það er metnaðarmál hjá bænum að aðstaða til íþróttaiðkunar sé til fyrirmyndar og Kópavogsbær leggur ríka áherslu á að málið verði leyst eins fljótt og kostur er.