Lítil hætta af gervigrasvöllum

Battavöllur við Hörðuvallaskóla er á meðal gervigrasvalla sem rannsakaðir voru í skýrslunni.
Battavöllur við Hörðuvallaskóla er á meðal gervigrasvalla sem rannsakaðir voru í skýrslunni.

Lítil hætta er talin á því að hættuleg efni berist í notendur gervigrasvalla í Kópavogi að því er fram kemur í niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar sem gerð var á átta gervigrasvöllum bæjarins.

Ekki hefur áður verið gerð jafn víðtæk rannsókn á gervigrasvöllum hér á landi að því er best er vitað og markar því rannsóknin tímamót.

Kópavogsbær óskaði eftir ítarlegri rannsókn á áhættu við notkun gervigrasvalla, bæði valla utandyra og innanhúss. Ráðist var í þessa heildarathugun á völlum í bænum vegna umræðu um heilsuspillandi áhrif dekkjakurls. 

Átta vellir voru rannsakaðir, tveir innivellir (Fífan og Kórinn), fjórir sparkvellir eða battavellir (Kársnesskóli Vallagerði, Smáravöllur, Lindaskóli og Hörðuvallaskóli) og þá voru tveir útivellir rannsakaðir, við Kórinn og Fífuna.

Athugaðar voru þrjár hugsanlegar flutningsleiðir inn í líkamann, með lofti (innivellir), með svita og úr meltingarvegi.

Efnin sem voru valin til rannsóknar eru þau sem athyglin hefur beinst að og rannsóknir víða um heim hafa tekið tillit til.

„Niðurstöður rannsóknarinnar benda nokkuð eindregið til að lítil hætta sé á að hættuleg efni berist í notendur núverandi gervigrasvalla í Kópavogi með lofti, svita og hugsanlegri inntöku kurlsins,“ segir í skýrslunni og þess getið að sú sé jafnframt niðurstaða fjölda erlendra rannsókna.

Höfundur skýrslunnar er Guðjón Atli Auðunsson fagstjóri efnagreininga og umhverfisrannsókna hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Lesa skýrslu