Fjölmargir lögðu leið sína á menningarholtið í Kópavogi á Safnanótt.
Góð aðsókn var á Safnanótt í Kópavogi á föstudagskvöld en fimm söfn á menningarholti bæjarsins buðu afar fjölbreytta dagskrá. Safnanótt er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en tilgangurinn er að vekja athygli á því mikla starfi sem fram fer í söfnum á svæðinu.
Þetta er í áttunda sinn sem Safnanótt er haldin. Yfirskriftin í ár var: Magnað myrkur.
Opið var frá kl. 19:00 til 24:00 í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Bókasafni Kópavogs, Tónlistarsafni Íslands og ungmennahúsinu Molanum.
Fjöldi fólks lagði leið sína á hina ýmsu sýningar og uppákomur á söfnunum og er jafnvel talið að aldrei fleiri hafi mætt á Safnanótt í Kópavogi.