Góð afkoma og lækkun skuldaviðmiðs

Ársreikningur Kópavogs 2021 var lagður fram í bæjarráði.
Ársreikningur Kópavogs 2021 var lagður fram í bæjarráði.

Afkoma Kópavogsbæjar 2021 er 1,3 milljarði króna betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstrarafgangur var 588 milljónir króna en gert hafði verið ráð fyrir 715 milljón króna rekstrarhalla. Munurinn skýrist einkum af því að tekjur eru talsvert hærri en gert hafði verið ráð fyrir en hins vegar hefur fallið til umtalsverður kostnaður vegna áhrifa Covid. Skuldaviðmið hefur aldrei verið lægra, en það var 83% í A-hlutanum en 94% hjá samstæðunni.

Þetta kemur fram í ársreikningi Kópavogs sem lagður var fram í bæjarráði í morgun.

„Niðurstaða ársreiknings er ánægjuleg og sýnir enn og aftur árangur af ábyrgri fjármálastjórnun og skilvirkni í rekstri bæjarins. Bæjarstjórn var samtaka um að gæta varkárni í fjárhagsáætlunargerð og það skilar sér. Svo er einkar ánægjulegt að sjá að skuldaviðmið hefur aldrei verið lægra og er komið vel undir 100%,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs .

Ársreikningi var vísað til bæjarstjórnar Kópavogs og verður hún tekin til fyrri umræðu á næsta fundi, þriðjudaginn 12. apríl. Þá verður einnig lögð fram í bæjarstjórn Sjálfbærniskýrsla Kópavogs fyrir árið 2021 en það verður í fyrsta sinn sem Kópavogur gefur út slíka skýrslu og jafnframt í fyrsta sinn sem sveitarfélag á Íslandi gefur út sjálfbærniskýrslu.

Skuldaviðmið aldrei lægra

Skuldaviðmið A-hlutans var 83%. Skuldaviðmið A- og B-hluta, samstæðunnar, var 94% í árslok 2021 en var 105% í árslok 2020. Viðmið samkvæmt lögum þarf að vera undir 150%. Skuldaviðmið hefur ekki verið lægra síðan sveitarstjórnarlögin tóku gildi árið 2011, en þá var ákvæði um skuldaviðmið sveitarfélaga sett inn í lögin.

Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi fyrir 2021 eru 30,6 milljarðar króna, 564 milljónum lægra en í fyrra. Heildarskuldir og skuldbindingar Kópavogsbæjar hækkuðu hins vegar um 913 milljónir króna. árið 2021. Skuldbindingar hækkuðu um 914 milljónir króna en aðrar skuldir standa nánast í stað að teknu tilliti til verðbólgu, sem varð mun meiri en áætlað hafði verið. Hækkun skulda skýrist af lífeyrisskuldbindingum, skuldbindinga vegna Vatnsendamáls og kaupa bæjarins á landi ríkisins á Vatnsendahæð í Vatnsendahvarfi. Unnið er að skipulagi í Vatnsendahvarfi sem þýðir að stutt er í úthlutun lóða þar, með tilheyrandi tekjum.

Lán voru endurfjármögnuð 2021 þannig að heildar greiðslur lána voru 6 milljarðar en á móti voru teknar 3,9 milljarðar að láni.

Tekjur og eignir

Sem fyrr segir var rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi A og B hluta jákvæð um 588 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 715 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrartekjur A-hluta námu 38, 1 milljarði króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 34,9 milljörðum.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 24 milljónir króna en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir um milljarði króna í tap. Eigið fé samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi A og B hluta í árslok 2021 nam 33,5 milljörðum króna en eigið fé á A hluta nam 20,3 milljörðum króna.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar voru 2,7 milljarðar króna en gert hafði verið ráð fyrir 1,6 milljarði. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Fjárfestingar

Fjárfestingar og framkvæmdir í eignum bæjarins námu um tveimur milljörðum króna. Meðal helstu framkvæmda var bygging íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk við Fossvogsbrún. Þá voru framkvæmt í leik- og grunnskólum fyrir alls 700 milljónir króna. Um 750 milljónum króna var varið í viðhaldverkefni af ýmsum toga. Þá voru gatnaframkvæmdir ýmis konar um 780 milljónir króna.

Laun og launatengd gjöld

Laun og launatengd gjöld A og B hluta á árinu námu alls 22,4 milljarði króna. Fjöldi á launaskrá í árslok var 2.917 en meðal stöðugildi á árinu voru 2.094.

Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. desember 2021 voru 38.987 og fjölgaði þeim um 278 frá fyrra ári eða um 2%.

Ársreikningur Kópavogs 2021