Gönguleiðir í Kópavogi

Ásdís Kristjánsdóttir og Einar Skúlason í Guðmundarlundi sem er upphafsstaður fimm kílómetra hrings…
Ásdís Kristjánsdóttir og Einar Skúlason í Guðmundarlundi sem er upphafsstaður fimm kílómetra hrings um hina óbyggðu Vatnsendahlíð.

Upplýsingar um fjölbreyttar gönguleiðir í landi Kópavogs hafa nú verið gerðar aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar i og á gönguleiðaforritinu Wikiloc undir heitinu Kópavogsgöngur.

Komnar eru inn upplýsingar um níu gönguleiðir en stefnt er að því að bæta við fleiri gönguleiðum til að auka fjölbreytileika og tækifæri fyrir sem flesta til að ganga í landi Kópavogs. Verkefnið vann Kópavogsbær í samstarfi við Einars Skúlason göngugarp.

„Kópavogur er mikill heilsubær og hefur verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag síðastliðin átta ár. Með því að setja inn upplýsingar um gönguleiðir í bænum vonumst við til að enn fleiri íbúar nýti sér bæjarlandið til hreyfingar og útivistar en gönguleiðirnar henta breiðum hópi í aldri og getu. Þá eru gönguleiðirnar líka góð leið til að kynnast Kópavogi enn betur. Við Kópavogsbúar bjóðum líka íbúa annarra sveitarfélaga velkomin í göngur í bænum okkar“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Leiðirnar eru yfirleitt ekki stikaðar en öllum gönguleiðunum fylgir tengill á forritið Wikiloc sem gerir það kleift að fylgja leiðinni í snjallsíma eða hlaða niður GPX skrá og færa yfir á GPS tæki. Á hverri leið á forritinu Wikiloc hefur auk þess verið bætt við fróðleiksmolum um athyglisverða staði á leiðinni eða öðrum fróðleik um svæðið.

Ýmsar gagnlegar upplýsingar er að finna um gönguleiðirnar, svo sem vegalengd, áætlaðan göngutíma og hækkun á gönguleið. Þá eru gönguleiðirnar skilgreindar eftir erfiðleikastigi.

Gönguleiðirnar sem nú eru komnar inn á heimasíðu Kópavogsbæjar eru um Fossvogsdal, Guðmundarlund – Elliðavatn, Himnastigann, Víghól og Heljarslóð, Kópavogsdal og Kópavogstún, Selfjall og Sandfell, Stóra-Kóngsfell, Drottningu og Eldborg, Vífilsfell, umhverfis Linda- og Salahverfi og loks Langleiðin sem er Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell.

Kópavogsgöngur - upplýsingar

Kópavogsgöngur á Wikiloc