Google myndaði sumarstarfsmenn

Google bíllinn fann sumarstarfsmenn í Kópavogi.
Google bíllinn fann sumarstarfsmenn í Kópavogi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Google sendi bíla hingað til lands í sumar til að mynda götur, hús og náttúru. Afraksturinn var birtur á Google Map fyrir skömmu og hafa Íslendingar síðan þá leitað uppi myndir af fólki og dýrum sem urðu á vegi Google-bílanna. Kópavogsbúar fengu Google líka í heimsókn og á meðfylgjandi mynd má sjá sumarstarfsmenn bæjarins að störfum.

Andlitin hafa verið afmáð en þessi mynd mun sennilega varðveitast á veraldarvefnum, Google Map, um ókomna tíð. Ísland er síðasta landið í Evrópu sem Google myndar.

Kópavogsmiðillinn, Kópavogsfréttir, hefur rýnt í myndirnar úr Kópavogi og á vefsíðu sinni birtir hann nokkrar myndir þar sem sjá má Kópavogsbúa á ferð um götur bæjarins. Til að mynda fólk að hjóla, á rölti við Salalaug, að vinna við vegagerð, eða eins og fyrr sagði, sumarstarfsmenn að snyrta og fegra lóðir bæjarins.

Sjón er sögu ríkari.