Götuganga Virkni og vellíðan í Kópavogi

Gengið á vegum Virkni og vellíðan í Kópavogi. Gangan 11.maí er öllum opin.
Gengið á vegum Virkni og vellíðan í Kópavogi. Gangan 11.maí er öllum opin.

Fyrsta keppni í götugöngu sem haldin hefur verið á Íslandi verður haldin í Kópavogi, 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar.

Virkni og vellíðan, heilsuefling 60 ára og eldri í Kópavogi, stendur að viðburðinum. Þátttaka í keppninni er opin öllum sem eru 60 ára og eldri. Nauðsynlegt er að skrá sig en ekkert gjald er í gönguna.

Skráning í götugöngu

Veitt verða vegleg verðlaun fyrir efstu sæti í hverjum aldursflokki auk útdráttarverðlauna.

Gangan hefst klukkan 15.00 og er ræst frá Fífunni í Kópavogsdal.

Markmiðið með keppninni er að vekja athygli á mikilvægi hreyfingar eldra fólks og hversu fjölbreytt heilsuefling er í boði víðsvegar um landið.

Hringurinn sem farinn verður er 3,4 kílómetrar og byrjar og endar við Breiðablik. Nítján bekkir eru á leiðinni sem hentar þeim sem vilja fara rólega.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs mun ræsa gönguna og veita verðlaun.

„Heilsuefling 60 ára og eldri er mjög mikilvæg og við í Kópavogi höfum sinnt henni af miklum metnaði undir merkjum Virkni og vellíðan. Það er vel til fundið að efna til götugöngu í aldurshópnum 60 ára og eldri og vonast ég til að sem flestir taki þátt,“ segir Ásdís.

Götuganga er viðurkennd keppnisgrein sem ekki hefur verið stundum mikið hér á landi og hefur ekki verið keppt í henni til þessa. Í Kópavogsgöngunni verður keppt í fjórum aldursflokkum: 60-69 ára, 70-79 ára, 80-89 ára og 90 ára og eldri.

Þátttakendur yngri en 60 ára eru velkomnir án skráningar og tímatöku.

Allir keppendur fá Hleðslu og Næringu+ í boði MS við marklínu.

Leiðin sem er farin er ein af leiðum sem eru aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar undir heitinu Kópavogsgöngur. Hún liggur um Kópavogsdal og Kópavogstún

Virkni og vellíðan verkefni Kópavogsbæjar í samstarfi við Breiðablik, Gerplu og HK.