Götuljós verða slökkt í Kópavogi

Kópavogsbær hefur ákveðið að slökkva á götuljósunum í kvöld, líkt og nágrannasveitarfélögin, frá kl. 21:30 til 22:00. Þar með  ættu bæjarbúar að geta notið norðurljósanna betur í kvöld. Veðurstofan hefur spáð stórkostlegri norðurljósasýningu í háloftunum og vonandi færa skýin sig frá, svo Kópavogsbúar geti notið herlegheitanna.

Reykjavík, Hafnarfjörður og Seltjarnarnes hafa, þegar þetta er skrifað, ákveðið að slökkva líka á götuljósunum en það var Andri Snær Magnason rithöfundur sem viðraði þá hugmynd upphaflega við borgaryfirvöld í Reykjavík.

Reykjavík slekkur á ljósunum í nokkrum hverfum en Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Kópavogur slökkva ljósin alls staðar. Þetta er gert í samráði við viðeigandi aðila, svo sem Orkuveitu Reykjavíkur og lögregluna.

Ökumenn eru beðnir um að aka varlega á meðan ljósin eru slökkt.

Á Vísindavefnum má fá upplýsingar um hvers konar fyrirbæri norðurljósin eru

Norðurljósaspá Veðurstofu Íslands