Grænkera valkostur innleiddur

Unnið er að innleiðingu á grænkerafæði í skólum í Kópavogi.
Unnið er að innleiðingu á grænkerafæði í skólum í Kópavogi.

Frá og með 1.mars er hægt að velja grænkerafæði í skólum í Kópavogi, þegar foreldrar skrá börn sín í mat í skráningarkerfi mötuneyta. Komið hefur verið á móts við óskir grænkera í skólum bæjarins til þessa með óformlegri hætti.

Við undirbúning á markvissri innleiðingu á grænkerafæði í skólum var matreiðslumönnum í grunnskólum boðið upp á námskeið í ágúst síðastliðnum. Þá var gerð gæðaúttekt í mötuneytum sem lauk vorið 2022.

Í tengslum við innleiðingu í mötuneytum verða reglulegir fundir hjá matreiðslumönnum grunnskólanna, endurmenntun og fræðsla. Nýleg könnun sem gerð var í skólum bæjarins sýnir að innleiðing á grænkerafæði er hafin í flestum skólum, og á bilinu tveir til átta nemendur velja vegan fæði.

Fjölbreytni í fæðuvali hefur verið sett á dagskrá af börnum bæjarins og meðal annars verið til umfjöllunar í ungmennaráði Kópavogs og tillögum þeirra til bæjarstjórnar. Áhersla er á það í Kópavogi að hlusta á raddir barna, en bærinn er barnvænt sveitarfélag.