Grænlensk börn sækja Kópavog heim

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti grænlensku börnunum á Bessastöðum mánudaginn 17.…
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti grænlensku börnunum á Bessastöðum mánudaginn 17. september.

Átján börn frá afskekktum þorpum á austurströnd Grænlands hafa dvalið í Kópavogi undanfarið, fengið sundkennslu og kynnst jafnöldrum í bænum. Börnin, sem eru ellefu ára, dvelja í tvær vikur á Íslandi.

Þetta er þrettánda árið sem grænlensk börn dvelja í Kópavogi en það er KALAK, vinafélag Grænlands og Íslands og Hrókurinn sem standa fyrir heimsókninni.

Auk Kópavogsbæjar er heimsóknin studd af Menntamálaráðuneytinu, FÍ og fjölmörgum einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.

Tvisvar á dag fara börnin í sund en jafnframt kynnast þau jafnöldrum sínum í skólum í Kópavogi. Í áru eru það Smáraskóli og Kársnesskóli sem hafa tekið á móti börnunum.  Að loknu sundnámi hvers dags er síðan hlaðin dagskrá þar sem þau fara í ferðir og kynnast ýmsu: bíó, leikhús, hestaferð, tívolí, Húsdýragarðurinn, Gullni hringurinn, Klifurhúsið, Rauði krossinn, Skautahöllin, heimsókn á Alþingi, fara á Bessastaði til forseta Íslands og margt fleira.

"Þetta er því mikil og skemmtileg lífsreynsla en jafnframt lærdómsrík og vonandi gott fararnesti í framtíðina. Gleðin er því mikil hjá þessum ungu afkomendum okkar næstu nágranna," segir í frétt á vefsíðu KALAK.