Grakkarnir halda listasýningu

Þrettán unglingar starfa hjá Gerðarsafni í sumar á vegum Vinnuskóla Kópavogs við að kynna sér samtí…
Þrettán unglingar starfa hjá Gerðarsafni í sumar á vegum Vinnuskóla Kópavogs við að kynna sér samtímalist og starf Gerðarsafns.

Unglingaráð Gerðarsafns eða Grakkarnir sýna afrakstur sumarsins á listasýningu næsta fimmtudag 5. ágúst á milli 17:00 og 20:00. Listasýningin ber heitið „Þríhyrningur, ha?” og verður í bílakjallaranum fyrir neðan Molann, ungmennahús, beint á móti Gerðarsafni. 

 

Þrettán unglingar starfa hjá Gerðarsafni í sumar á vegum Vinnuskóla Kópavogs við að kynna sér samtímalist og starf Gerðarsafns, með það að markmiði að gera safnið unglingavænna og móta eins konar unglingaráð safnsins. Starfið leiða þau Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Helgi Grímur Hermannsson sviðshöfundar en þau hafa bæði unnið mikið með ungu fólki.

 

Í sumar hafa unglingarnir meðal annars farið í mismunandi listasmiðjur eins og bókagerð, skúlptúrgerð úr rusli, hljóðfærasmiðju, fatasmiðju hjá listakonunni Ýrúrarí og teiknismiðju hjá Vegglist í Kópavogi.

 

Á viðburðinum verða til sýnis málverk, skúlptúrar, myndbandsverk og innsetningar sem Grakkarnir hafa unnið að í sumar. Til að gæta fyllsta öryggis vegna Covid19 varð bílakjallari Molans valinn til sýningarhalds þar sem gestir geta haldið fjarlægð undir beru lofti. Grímur og handspritt verða einnig í boði á viðburðinum.