Hamrabrekkan breytir um svip

Andlit Jóns út Vör málað á hús við Hamrabrekku
Andlit Jóns út Vör málað á hús við Hamrabrekku
Vegfarendur í miðbæ Kópavogs hafa vafalaust tekið eftir því að ásýnd húsanna við Hamrabrekku, norðan megin Hamraborgar, hefur breyst og lifnað við að undanförnu.  Nýlega fæddist þar andlit Kópavogsskáldsins, Jóns úr Vör, eftir ástralska listamanninn Guido Van Helten  en fyrr í sumar birtist þar verk eftir listakonuna Kristínu Þorláksdóttur, sem er tilvísun í ljóð Kópavogsskáldsins og ber heitið Ómáluð mynd. Verkin eru styrkt af lista- og menningarráði en með þessu er verið að marka þá stefnu að gera listina sýnilegri og lífga upp á bæinn.

Guido er sennilega einna þekktastur hér á landi fyrir að mála andlitsmyndir á veggi í Vesturbæ Reykjavíkur, en hann hefur einnig gert vegglistaverk í Vestmannaeyjum og á Akureyri. Verk hans prýða einnig  húsveggi í London, Melbourne, Dublin og Edinborg.

Kristín Þorláksdóttir hefur einnig lagt áherslu á götulist og má m.a. sjá verk eftir hana í miðbæ Reykjavíkur og í Vestmannaeyjum. Verkið hennar í Kópavogi var gert á Kópavogsdögum, menningarhátíð Kópavogs, í vor. Kristín stundar nú myndlistarnám í Toronto í Kanada.

Ljóðlist hefur lengi verið í hávegum höfð í Kópavogi og því við hæfi að ljóð og Kópavogsskáldið setji sinn svip á bæjarmyndina. 

Verkin ættu ekki að fara framhjá þeim sem koma frá Reykjavík og aka í átt að menningarhúsum bæjarins við Hamraborg.

Jón úr Vör