Hátíðarhöld 17. júní í Kópavogi

17. júní 2014
17. júní 2014

Hátíðardagskráin 

Haldið verður upp á 17. júní í Kópavogi með metnaðarfullri dagskrá sem stendur allan daginn og fram á kvöld. Dagskrá þjóðhátíðardagsins hefst með sérstakri opnun í sundlaugum bæjarins þar sem Skólahljómsveit Kópavogs leikur fyrir gesti.

Skrúðganga hefst við Menntaskólann í Kópavogi klukkan 13.30 og lýkur á Rútstúni þar sem við tekur hátíðar- og skemmtidagskrá undir stjórn Sóla Hólm og Gísla Einarssonar.

Þá verða kvöldtónleikar á Rútstúni frá 19.30 til 22.00.

Dagskrá 17. júní í Kópavogi verður með eftirfarandi hætti:

Sundlaugarnar verða opnar frá 8.00-18.00. Hópar á vegum Skólahljómsveitar Kópavogs óska sundlaugargestum gleðilegrar hátíðar með þjóðlegum tónum.

Hið árlega 17. júní hlaupi fyrir börn í 1. -6. bekk verður við Kópavogsvöll og hefst það kl. 10:00. Sannkölluð fjölskyldustemning þar sem allir fá verðlaunapening.

Skrúðgangan leggur af stað frá Menntaskólanum í Kópavogi klukkan 13.30 og lýkur henni á Rútstúni en þar tekur við hátíðar- og skemmtidagskrá sem þeir Gísli Einarsson og Sóli Hólm stýra.

Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs flytur ávarp, fjallkonan fer með ljóð og nýstúdent flytur hugleiðingar unga fólksins á þjóðhátíðardegi. Skólahljómsveit Kópavogs leikur ættjarðarlög undir fánaborg frá Skátafélaginu Kópum. Lína Langsokkur mætir á svæðið, María Ólafsdóttir tekur lagið og Margrét Eir syngur lög úr kvikmyndinni Frosin. Íþróttaálfurinn og Solla stirða verða á sínum stað ásamt Gunna og Felix. Tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal kemur fram sem og hljómsveitin Rythmatík sem nýlega sigruðu Músíktilraunir. Dagskemmtuninni á sviðinu lýkur svo með þeim Herra Hnetusmjöri og Joe Frazier.

Auk dagskrár á stóra sviðinu er ýmislegt annað til skemmtunar. Á Rútstúni verða hoppukastalar, tívolítæki og stórt tjald með leiktækjum fyrir börn á aldrinum 0-5 ára. Götuleikhús Kópavogs skemmtir í skrúðgöngunni, Hjálparsveit Skáta í Kópavogi verður með búnaðarsýningu við enda Vallargerðisvallar, boðið verður upp á andlitsmálun og íþróttafélögin sjá um veitingasölu á svæðinu.

Í ár verður líka dagskrá á túninu við Gerðarsafn þar sem  Skapandi sumarstörf verða með ýmsar uppákomur, og þar verður einnig andlitsmálun og leiksvæði fyrir börnin.

Hátíðarkaffi hefst kl. 14.00 í félagsmiðstöðinni Gjábakka. Þar mun tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal koma fram auk atriða frá Skapandi sumarhópum Molans.

Um kvöldið verða útitónleikar á Rútstúni. Þeir hefjast kl. 19.30 og standa til kl. 22:00.  Fram koma Toneron, Gísli Pálmi, Júníus Meyvant, Bubbi, og Amabadama.