Hátíðarkveðja bæjarstjóra

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs sendir íbúum bæjarins hátíðarkveðjur.

Jólahátíðin er tími samveru þar sem eftirvæntingin skín í gegn hjá börnum jafnt sem fullorðnum. Bærinn skartar sínu fegursta, er kominn í jólabúning sem lýsir upp skammdegið. Aðventan er tími til að njóta með ástvinum, minnast þeirra sem eiga um sárt að binda og minnast ástvina sem hafa fallið frá.

Árið 2022 er mitt fyrsta ár í embætti bæjarstjóra Kópavogs, fyrsta hálfa árið hefur verið viðburðaríkt, fjölbreytt og áhugavert. Ég er þakklát fyrir að það traust sem mér er sýnt til að gegna þessu mikilvæga embætti og mun leggja mitt af mörkum til að þjónusta bæjarbúa, gera betur í dag en í gær. Stærsta áskorun í starfi felst í því að sofna ekki á verðinum eða vera værukær. Því er nauðsynlegt að standa vörð um það sem vel er gert, en vera um leið vakandi fyrir nýjum og ferskum hugmyndum.

Hjá okkur sem gegnum forystu í bænum einkennast haustin af vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun í erfiðu efnahagsumhverfi. Forgangsröðun verður í þágu skóla og velferðarmála og við ætlum okkur að efla grunnþjónustu bæjarins enn frekar. Álögur lækka á bæjarbúa og fyrirtæki í bænum og gjaldskrám verður stillt í hóf þannig að þær fylgja ekki að öllu leyti þeim miklu kostnaðarhækkunum sem þegar liggja fyrir. Stærstu fjárfestingar næsta árs eru í skólum og íþróttamannvirkjum og þá verður lögð áhersla á viðhald mannvirkja en eins og dæmin sanna er mikilvægt að sinna því vel.

Kópavogur er lifandi bæjarfélag fyrir unga sem aldna. Skóla Kópavogs tóku þátt í Vináttudeginum, baráttudegi gegn einelti, þar sem krakkar tóku þátt í fjölmennum göngum vítt og breitt um bæinn auk viðburða í stofnunum bæjarins. Dagurinn er mikilvægt innlegg til að minna ungu kynslóðina á mikilvægi góðra samskipta.

Fulltrúar yngstu íbúar bæjarins voru í aðalhlutverki í nóvember síðastliðinn þegar fjórir leikskólar í Kópavogi, Arnarsmári, Álfaheiði, Furugrund, Kópahvoll og Sólhvörf urðu réttindaskólar Unicef. Stolt leikskólabörn tóku við viðurkenningu sem ekki aðeins fyrstu réttindaleikskólar á Íslandi, heldur þeir fyrstu í heiminum! Markmið verkefnisins er að hjálpa börnum að vera virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Verkefnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og snýst um að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda. Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu Barnasáttmálans inn í starf Kópavogsbæjar um nokkurra ára skeið. Fleiri skólar í Kópavogi eru nú að undirbúa að vera réttindaleikskólar á komandi mánuðum.

Kópavogur er sannkallaður íþróttabær, enda íþróttaaðstaða til fyrirmyndar og eins sú besta á landinu, þar með talið frábærar sundlaugar, fjölsóttir stígar og útivistarsvæði í bænum.

Eldri íbúar bæjarins eru stækkandi hópur og mikilvægt að þjónusta bæjarins taki mið af því. Verkefnið „Virkni og vellíðan“ miða að því að styrkja andlega, líkamlega og félagslega heilsu eldri bæjarbúa. Þátttakendur fá tækifæri til hreyfingar undir handleiðslu þjálfara allt árið um kring, hlusta á fyrirlestrar og fara í heilsufarsmælingar. Verkefnið hefur skilað mælanlegum árangri og vakið verðskuldaða athygli. Við erum mjög stolt af því hér í bænum hversu vel hefur tekist til í samstarfi við íþróttafélögin. Mikilvægt er að verkefnið nái til stærri hóps og hefur því verið samþykkt að veita viðbótarfjármagn inn í verkefnið á árinu 2023.

Í menningarhúsunum í Kópavogi fer fram metnaðarfullt starf sem sniðið er að bæjarbúum á öllum aldri. Um þrjúhundruð þúsund gestir sækja húsin heim árlega og viðburðir þar telja ríflega þúsund á hverju ári. Húsakynnin eru glæsileg og rík áhersla lögð á að börn eigi þar greiðan aðgang og njóti menningaruppeldis og fræðslu eins og best verður á kosið. Á nýju ári er búið að skipuleggja fjölbreytta viðburði og hátíðir sem ég vona að sem flestir komi til með að njóta.

Hér hef ég aðeins talið örfá dæmi um viðburði og verkefni sem í boði eru í bænum. Mikilvægt er að við hlúum áfram vel að andlegri og líkamlegri heilsu í bænum fyrir alla bæjarbúa á öllum aldurskeiðum.

Árið er senn á enda og fram undan viðburðaríkt ár þar sem áfram verður á nægu að taka. Ég sendi mínar bestu kveðjur um góða aðventu, gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.