Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Desember er tími samveru með fjölskyldu og vinum. Kópavogsbær fer í sparibúning og lýsir upp skammdegið með jólaskreytingum vítt og breitt um bæinn. Á þessum tíma nýta margir tækifærið til að líta yfir árið sem er að líða og huga að því sem er fram undan.
Í ár varð Kópavogsbær sjötugur og það er óhætt að segja að afmælið hafi sett svip sinn á ýmsa viðburði sem haldnir voru á árinu í bæjarfélaginu okkar. Má nefna afmælisboð fyrir sjötuga íbúa bæjarins, málþing um barnvænt sveitarfélag, götugöngu með afmælissniði og þau skemmtilegu tíðindi að litahlaupið Color Run flutti heimili sitt í Kópavoginn. Kópavogur fékk kaupstaðaréttindi 11. maí sem í ár bar upp á sunnudegi og buðum við íbúum upp á köku í Smáralind samhliða veglegri barnamenningarhátíð þar sem forseti Íslands heiðraði bæinn með heimsókn sinni.
Afmælisviðburðir eru vitanlega einungis brot af því sem við höfum gert á árinu en það er mikilvægt að fagna áfanga sem þessum og hefur verið einstaklega skemmtilegt að hitta íbúa á öllum aldri við þessi tækifæri.
Menningarstarf og íþróttir í fremstu röð
Af mikilli aðsókn á hátíðir og viðburði bæjarins má draga þá ályktun að Kópavogsbúar séu mjög félagslyndir enda hefur aðsókn í menningarhús bæjarins hefur aldrei verið meiri. Því er ljóst að um þær breytingar sem við boðuðum í upphafi kjörtímabils ríkir mikil ánægja, ekki aðeins meðal Kópavogsbúa heldur höfuðborgarbúa almennt. Bókasafn Kópavogs er sannkallað heimili að heiman, býður upp á fjölda viðburða, góðan bókakost og frábæra aðstöðu. Náttúrusafn Kópavogs deilir fyrstu hæð með Bókasafninu og þangað fjölmenna fjölskyldur dag hvern, skoða safnið og eiga góðar stundir. Gerðarsafn er í fararbroddi safna á landinu og Salurinn er framúrskarandi til tónleika af ýmsu tagi.
Íþróttaaðstaða í okkar bæjarfélagi er til fyrirmyndar og eru frekari framkvæmdir fram undan á vegum bæjarins á komandi árum til að byggja upp enn betri aðstöðu fyrir íþróttafólkið okkar, en þúsundir barna og ungmenna stunda íþróttir í Kópavogi. Í fyrsta sinn stóðum við að heildstæðri könnun á meðal foreldra um gæði íþróttastarfsins og skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar séu frábærar og mikil ánægja er með starf okkar félagsliða í Kópavogi.
Eldri bæjarbúar eru ört stækkandi hópur og mikilvægt er að þjónusta bæjarins taki mið af því. Við höfum haldið áfram að efla heilsueflingarverkefnið „Virkni og vellíðan“ fyrir 60 ára og eldri, en verkefnið miðar að því að styrkja andlega, líkamlega og félagslega heilsu eldri íbúa Kópavogs. Mikil ánægja er með verkefnið sem endurspeglast í mikilli fjölgun iðkenda og er árangurinn slíkur að verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli hjá öðrum sveitarfélögum. Þá höfum við fest í sessi helgaropnun í félagsmiðstöðvum aldraðra til að draga úr einmanaleika, því eins og komið hefur fram eru Kópavogsbúar jú almennt félagsverur.
Mikilvægar breytingar í skólamálum
Við erum einnig umbótasinnuð í Kópavogi og ekki hrædd við breytingar líkt og verkefnin okkar hafa sýnt á undanförnum árum.
Þar vil ég fyrst nefna Kópavogsmódelið í leikskólum okkar en við vorum fyrst sveitarfélaga til að breyta leikskólaumhverfinu til að efla gæði starfs og þjónustu við barnafjölskyldur. Frá því að við innleiddum breytingarnar haustið 2023 hefur engin deild á leikskólum Kópavogs þurft að loka sökum manneklu, allir leikskólar Kópavogs hafa verið fullmannaðir og nú erum við að bjóða tólf mánaða gömlum börnum leikskólavist. Þjónustan er því stöðugri og faglegri sem er sá árangur sem að var stefnt og mikið fagnaðarefni hve vel hefur til tekist! Þá hefur Kópavogsmódelið fengið verðuga athygli og frábært að sjá önnur sveitarfélög feta svipaðar slóðir.
Við stigum einnig mikilvæg skref í grunnskólamálum og kynntum sextán umbótaaðgerðir til að svara ákalli foreldra, nemenda og kennara og tryggja um leið að skólar í Kópavogi verði áfram í fremstu röð og leiðandi í umbótum í skólastarfi. Í heimsóknum mínum í alla grunnskóla Kópavogs heyrði ég sterkt ákall þess efnis að foreldrar og nemendur vilji fá betri mynd af stöðu og framvindu í námi. Því munu nemendur í Kópavogi fara ár hvert í samræmd stöðu- og framvindupróf frá 4.-10.bekk og nýtast niðurstöður þeirra kennurum, nemendum og foreldrum til að styðja betur við nám og framfarir nemenda. Við leggjum sérstaka áherslu á að fjölga fagmenntuðum kennurum og styrkja samstarf heimilis og skóla. Við hlustum á skólasamfélagið og foreldra og erum nú að bregðast við með markvissum og faglegum hætti.
Í ár höfum við tekið mörg skref í átt að bættri þjónustu með því að nýta okkur stafrænar lausnir með það að markmiði að spara bæjarbúum sporin og tíma starfsfólks. Nú í fyrsta skipti geta bæjarbúar pantað viðtal hjá bæjarstjóra á netinu, dagbókin mín er opin og með einum smelli eru þið komin með tíma. Á þessu ári tók ég á móti fimmhundruðasta íbúanum í viðtalstíma bæjarstjóra. Ég hef lagt ríka áherslu á að hlusta á þarfir Kópavogsbúa, bregðast við ábendingum og grípa góðar hugmyndir og leiða þær áfram.
Bætt lífsgæði íbúa
Markmið okkar sem gegnum forystu í Kópavogi er skýrt: að bæta lífsgæði íbúa með öflugri þjónustu, ábyrgum rekstri og lágum sköttum.
Rekstur Kópavogsbæjar er traustur og við höfum lagt megin áherslu á rétta forgangsröðun í að efla grunnþjónustu við bæjarbúa. Frá upphafi kjörtímabils höfum við lækkað fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld og munum gera áfram á árinu 2026. Samtals nema skattalækkanirnar 3,7 milljörðum króna – um milljarður á ári sem verður eftir hjá heimilum í bænum. Kópavogsbúar greiða nú lægstu fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir hátt fasteignamat. Við höfum hagrætt í rekstri og forðast óþarfa útgjöld til að tryggja ábyrgan rekstur samhliða skattalækkunum.
Eins og þessi pistill ber með sér þá er í ýmis horn að líta hjá bæ sem er jafn fjölmennur og Kópavogur. Því er afar mikilvægt að missa ekki sjónar á því mikilvæga verkefni sem fylgir störfum bæjarstjóra en það er að standa vörð um hagsmuni Kópavogsbúa og byggja upp öflugt samfélag með innviði og þjónustu sem mætir þörfum íbúa.
Tíminn er fljótur að líða og kjörtímabilið er senn á enda. Er ég afskaplega stolt af þeim verkefnum sem við höfum fylgt eftir á þessu kjörtímabili og hlakka til ársins 2026 sem verður klárlega viðburðaríkt kosningaár.
Kæru Kópavogsbúar, ég sendi mínar bestu kveðjur um góða aðventu, gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.