Haustfrí í leikskólum Kópavogsbæjar

Úr haustfríi á Baugi.
Úr haustfríi á Baugi.

Leikskólar í Kópavogi fóru í fyrsta sinn í haustfrí dagana 26. og 27. október, eins og grunnskólar bæjarins. Flestir leikskólar voru lokaðir þessa daga en öllum foreldrum stóð þó til boða að skrá börnin sín í dvöl og voru fjórir leikskólar í bænum opnir, Urðarhóll, Núpur, Grænatún og Baugur.

Afar vel gekk hjá þeim börnum og starfsfólki sem mættu í leikskólana. Líf og fjör var á öllum stöðum, verið að skapa, syngja, borða og leika úti og inni.

Um 90% barna í leikskólunum tóku í haustfríi en þau sem nýttu þjónustu leikskólanna voru með starfsfólki sem þau þekktu ásamt börnum úr sínum leikskóla. Opnu leikskólunum var þannig skipt í fjögur til fimm svæði innan viðkomandi skóla en börnin höfðu síðan tækifæri á því að vera öll saman í útiveru.

Almennt tóku börn vel í breytingarnar að sögn starfsfólks sem var í vinnu í haustfríinu. Þátttaka fjölskyldna í haustfríinu skipti sköpum enda nýtast haustfrídagar til að taka út styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna sem hefur haft mikið hagræði í för með sér við skipulagningu leikskólastarfs nú í haust.

Haustfríið er hluti af tillögum starfshóps um starfsumhverfi og starfsaðstæður í leikskólum Kópavogs og verður sömuleiðis lokað milli jóla og nýárs, í vetrarfríi í febrúar og í dymbilviku .