Hausthátíð menningarhúsanna

Fjölskyldustund verður í menningarhúsum Kópavogs í allan vetur.
Fjölskyldustund verður í menningarhúsum Kópavogs í allan vetur.

Haustinu er fagnað með opnu húsi í menningarhúsum Kópavogs á laugardag. Dagskrá stendur yfir í húsnum frá 13-17. Dagurinn markar upphaf fjölskyldustunda menningarhúsanna sem haldnar verða á laugardögum í allan vetur. Meðal þess sem boðið verður á í haust er rappnámskeið, skúlptúrnámskeið, tilraunasmiðja og leiksýningar.

Kópavogsbúar eiga von á að dagskrárbæklingur menningarhúsanna berist inn um lúguna á næstu dögum, en í honum má kynna sér dagskrá fjölskyldustunda haustsins.

Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Salurinn, Bókasafni Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs ljúka upp dyrum á laugardag.  

Í Salnum hefjast tónlistaratriði  klukkan 13  en þar munu ýmsir tónlistarmenn koma fram í því skyni að kynna vetrardagskrá Salarins.

Klukkan 14 byrjar listsmiðja fyrir börn í Gerðarsafni en einnig verða skoðunarferðir í geymslur safnsins.

 Þá verður starf vísindamannsins kynnt í Náttúrufræðistofunni klukkan 15 en þar er ekki aðeins eina náttúrusýning höfuðborgasvæðisins heldur einnig fullkomin rannsóknarstofa.

Dagskránni á laugardag lýkur í Héraðsskjalasafninu þar sem símaskráin verður til umræðu. Spjallið um símaskrána hefst kl. 16 í húsnæði Héraðsskjalasafnsins að Digranesvegi 7.

Í Bókasafni Kópavogs verður svo ratleikur allan daginn. Fólk getur komið á milli atriða eða þegar því hentar og skellt sér í spennandi leik en einnig fengið kennslu í bókaplöstun en það er eitt af þessum földu störfum sem fram fer í bókasöfnum.