Heiðruð fyrir jafnréttisstarf

Afhending viðurkenningar jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar 2014.
Afhending viðurkenningar jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar 2014.

Skólahljómsveit Kópavogs, fimleikafélagið Gerpla og Kjarninn, félagsmiðstöðin í Kópavogsskóla og Kópavogsskóli eru handhafar jafnréttis- og mannréttindaviðurkenningar Kópavogs í ár. Viðurkenningin til Skólahljómsveitarinnar var afhent á hausttónleikum sveitarinnar en hinar verða afhentar á næstu dögum. Skólahljómsveit Kópavogs, sem stofnuð var árið 1966, var fyrsta skólahljómsveit landsins sem opin var bæði stúlkum og drengjum.

 Hún hefur alla tíð haft jafnrétti á dagskránni, kappkostað við að gera öllum jafnt undir höfði í starfi hljómsveitarinnar og lagt sérstaka áherslu á að útrýma hugmyndum um stráka- og stelpuhljóðfæri.  Markmið hljómsveitarinnar er að allir vinni saman að sameiginlegu markmiði, óháð kyni, uppruna og utanaðkomandi aðstæðum.  

Við inntöku nýrra nemenda er gætt að því að taka inn nemendur af báðum kynjum eins og hægt er út frá umsóknum um hvert hljóðfæri. Þá hefur skólahljómsveitin að markmiði að gefa öllum börnum tækifæri til tónlistarnáms án tillit til fjárhags með því að hafa námsgjald lægra en í öðrum tónlistarskólum.

Það var Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, og Guðrún Björg Eyþórsdóttir, varaformaður jafnréttis- og mannréttindaráðs, sem afhentu Össuri Geirssyni, stjórnanda sveitarinnar viðurkenninguna.

Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogs veitir ár hvert viðurkenningu til þeirra sem unnið hafa að jafnréttis- og mannréttindamálum í Kópavogi. Eins og áður sagði fá fimleikafélagið Gerpla og Kópavogsskóli og félagsmiðstöðin Kjarninn í Kópavogsskóla viðurkenninguna auk Skólahljómsveitar Kópavogs. Viðurkenningin til Gerplu verður afhent á fimleikamóti næstu helgi og viðurkenningin til Kjarnans í næstu viku.