Heiðurs- og bæjarlistamaður Kópavogs

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Sigtryggur Baldursson bæjarlistamaður, Margrét Örnólfsdót…
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Sigtryggur Baldursson bæjarlistamaður, Margrét Örnólfsdóttir heiðurslistamaður og Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs.

Margrét Örnólfsdóttir er heiðurslistamaður Kópavogs í ár og Sigtryggur Baldursson er bæjarlistamaður. Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs tilkynnti þetta við hátíðlega athöfn á Bókasafni Kópavogs í dag.

Margrét og Sigtryggur búa í Kópavogi og hafa um árabil látið mjög að sér kveða í íslensku lista- og menningarlífi.
 
Sigtryggur mun sem bæjarlistamaður vinna að því með lista- og menningarráði og starfsmönnum Menningarhúsa Kópavogsbæjar að styðja við og efla unga tónlistarmenn í Kópavogi. Texti úr bókum Margrétar verður í Lestrargöngu Bókasafns Kópavogs sem sett verður upp á gönguleiðum í nágrenni Menningarhúsa bæjarins í sumar.

Nánar um Margréti 

Margrét lauk 8. stigi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1994 og var árin á undan hljómborðsleikari Sykurmolanna. Næstu ár starfaði hún sjálfstætt sem tónlistarmaður og samdi tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir, gaf út barnaplötur og fleira.
 
Margrét vann einnig lengi við dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp en frá árinu 2000 hefur hún verið afkastamikill handritshöfundur. Nú síðast skrifaði hún þáttaröðina Fanga sem naut mikilla vinsælda þegar hún var frumsýnd í byrjun árs og hefur verið seld til fjölda sjónvarpsstöðva í Evrópu. Margrét hefur einnig skrifað fyrir leiksvið, leikgerð að Lísu í Undralandi sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrravetur, einleikinn Kameljón og útvarpsverkið Skuggablóm sem flutt var á RÚV í fyrra.
 
Margrét hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, meðal annars bókaflokkinn um Aþenu og hafa bækur hennar unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga.
 
Margrét hefur verið formaður Félags leikskálda og handritshöfunda frá árinu 2013 auk þess að sitja í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna og stjórn Bandalags íslenskra listamanna.

Nánar um Sigtrygg

Sigtryggur Baldursson hefur verið virkur tónlistarmaður til margra ára, allt frá níunda áratug síðustu aldar þegar hann byrjaði að leika í hljómsveitum eins og Þeyr og síðar Kukl. Þar kynntist hann nokkrum tónlistarmönnum sem síðar  spiluðu með honum í Sykurmolunum en hljómsveitin var sú fyrsta sem starfaði alþjóðlega og gerði útgáfusamninga um allan heim.

Hann stofnaði Bogomil og Milljónamæringana árið 1992 en flutti utan árið 1993 þar sem hann starfaði að ýmsu tónlistartengdu næstu 10 árin í Bandaríkjunum og Hollandi.
 
Eftir að hann flutti aftur heim til Íslands hefur hann starfað að ýmsum verkefnum innan tónlistargeirans og gegnt trúnaðarstörfum í ráðum og nefndum, bæði á innlendum og norrænum vettvangi.

Síðustu árin hefur hann einnig unnið að sjónvarpsþáttagerð um íslenska tónlist, þættirnir nefnast Hljómskálinn og hafa hlotið tvenn Eddu verðlaun. Hann spilar einnig með ýmsum tónlistarmönnum svo sem Emilíönu Torrini, Tomasi R. Einarssyni og fleirum.
 
Sigtryggur gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra hjá ÚTÓN, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.