Heimalind er gata ársins

Gróðursett tré í Heimalind, götu ársins í Kópavogi 2019.
Gróðursett tré í Heimalind, götu ársins í Kópavogi 2019.

Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar voru afhentar í Gerðarsafni fimmtudaginn 22. ágúst. Sjö viðurkenningar voru veittar fyrir hönnun og umhverfi, og loks var val á götu ársins kynnt. Heimalind er gata ársins en hún var valin af bæjarstjórn Kópavogs fyrr í sumar.

Þar afhjúpaði Margrét Friðriksdóttir forseti bæjarstjórnar viðurkenningarskjöld og flutti ávarp. Þá gróðursettu Margrét,  Andri Steinn Hilmarsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Birkir Jón Jónsson formaður bæjarráðs tré í götunni og nutu við það dyggrar aðstoðar yngstu íbúa götunnar.

„Við Heimalind standa 9 lágreist einbýlishús, 3 parhús og 5 raðhús. Íbúar hafa lagt rækt við að viðhalda sérkenni húsa og skapa falleg garðsvæði. Samspil forgarða og bygginga mynda fallega heild í landslaginu með samræmi í litum húsa og grænu yfirbragð … Bygging húsanna við Heimalind hófst um 1998 og kjölfarið risu falleg hús við eina best skipulögðu götu bæjarins. Lega götunnar og útlit húsanna skapar upplifun um samheldni, náttúrutengsl og natni til þeirra sem við götuna búa,“ segir í umsögn um Heimalind.

 

Viðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar 2019:

Endurgerð húsnæðis

Álfhólsvegur 48

Berglind Gear Bjarnadóttir og John Gear

Berglind og John keyptu húsið árið 2004. Fljótlega byggðu þau bílskúr, smíðuðu palla, tóku garðinn í gegn og komu fyrir heitum potti.

Víghólastígur 24

Guðrún María Ólafsdóttir og Kári Pálsson

"Það sem við höfum að leiðarljósi var að leita að jafnvægi milli notagildis og hönnunar og tengingar garðs og vistarvera. Húsið er einstaklega bjart og lofthæð í stofu og eldhúsi mikil og skipti miklu máli að öll hljóð- og lýsingarhönnunin væri góð."

Umhirða húss og lóðar

Skólagerði 22

Inga Sigurðardóttir, Ingólfur Einar Kjartansdóttir

„Við fengum frábæra aðstoð frá JKverk ehf. til framkvæmdanna og voru þeir fljótir og snyrtilegir. Hugsunin með endurskipulagningunni var að gera garðinn aðgengilegan,  einfaldan og þægilegan enda um 700 fm2 garð að ræða.“

Hrauntunga 93

Ingolf Jóns Petersen / Sigrún I Petersen

"Með árunum hefur verið leitast við að hafa umhirðu garðsins sem auðveldasta, því var limgerðið fjarlægt og sígrænir runnar og tré sett niður meðfram götunni, en stallað grindverk í stíl við húsin vestan við garðinn."

Hönnun

Bæjarlind 5

Hornsteinar Arkitektar /Byggingafélagið Besta

„Við hönnun byggingarinnar er tekið mið af vistvænni hönnun og hafa markmið og kröfur erlendra vottunarkerfa verið höfð að leiðarljósi.  Í samræmi við það, nær sú hönnun ekki einungis til vistvæni þeirra byggingaefna sem valin eru, heldur er einnig leitast við að uppfylla kröfur og markmið varðandi gæði rýma með tilliti til loftgæða, birtu, útsýnis o.fl.“

Frágangur húss og lóðar á nýbyggingarsvæði

Sunnusmári 24-28

201 Smári / Arkís arkitektar

„Lögð er áhersla á vandaðan frágang, viðhaldslétt byggingarefni og að nýta hvert rými, bæði innan húss og utan ásamt því að horft er til framtíðar með tæknilausnum.“

Nánar um viðurkenningarnar